Styrkir til doktorsnema á Menntavísindasviði | Háskóli Íslands Skip to main content
24. febrúar 2020

Styrkir til doktorsnema á Menntavísindasviði

""

Styrktar- og rannsóknasjóður Þuríðar J. Kristjánsdóttur auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Sjóðurinn styrkir doktorsnema á Menntavísindasviði, einkum vegna rannsókna á sviði kennslumála. Hægt er að sækja um styrki vegna ráðstefnuferða, námskeiða, alþjóðlegs samstarfs, tækjakaupa, launakostnaðar og kostnað við rannsóknir. 

Heildarupphæð úthlutaðra styrkja er allt að 1.000.000 kr.

Umsóknarfrestur er til 15. mars 2020.

Í styrkumsókn þurfa eftirtalin atriði að koma fram: 

•    Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og virkt netfang.
•    Helstu atriði úr náms- og starfsferli og ritaskrá umsækjenda/leiðbeinanda síðastliðin 5 ár.
•    Heiti rannsóknarverkefnis, markmið og vísindalegt gildi.
•    Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, að hámarki 150 orð, sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar, hljóti verkefnið styrk.
•    Veigameiri lýsing á rannsóknarverkefni, að hámarki ein blaðsíða, þar sem fram kemur markmið verkefnisins, hvernig því er ætlað að auka við núverandi þekkingu á sviði rannsóknarinnar og hvernig það styður við markmið sjóðsins.
•    Rannsóknar- og verkáætlun sem felur m.a. í sér tímaáætlun, fjárhagsáætlun og helstu samstarfsaðila verkefnisins.
•    Nöfn, símanúmer og netföng tveggja meðmælenda.

Hámarkslengd umsóknar er þrjár síður fyrir utan fylgiskjöl. Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að veita fleiri en einum umsækjanda styrk, hafna öllum og/eða úthluta styrkjum með öðrum hætti. 

Áhersla er lögð á vönduð fræðileg vinnubrögð við gerð umsóknar. Gert er ráð fyrir að styrkþegi skili sjóðnum skýrslu með helstu niðurstöðum og árangri af verkefninu þegar því lýkur. 
Áætlað er að úthlutun fari fram við hátíðlega athöfn þann 1. apríl 2020 á Vorblóti Menntavísindasviðs og Reykjavíkurborgar.

Umsóknum skal skila sem viðhengi á netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands: sjodir@hi.is

Frekari upplýsingar er að finna á sjóðavef Háskóla Íslands.

Um Styrktar- og rannsóknasjóð Þuríðar J. Kristjánsdóttur

Sjóðurinn var stofnaður undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands árið 2019. Stofnframlag sjóðsins er gjöf Þuríðar Jóhönnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi prófessors og aðstoðarrektors Kennaraháskóla Íslands, sem lést árið 2018. Í erfðaskrá sinni arfleiddi hún Háskóla Íslands að húseign sinni og öðrum eigum með það að markmiði að stofna styrktarsjóð.
 
Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir fæddist á Steinum í Stafholtstungum í Borgarfirði 28. apríl 1927. Hún lauk kennaraprófi við Kennaraskóla Íslands árið 1948 og var síðar við nám í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn og Cambridge-háskóla í Englandi. Hún lauk BS-prófi frá Illinois-háskóla í Urbana árið 1968, meistaraprófi 1969 og doktorsprófi í menntasálarfræði frá sama skóla árið 1971. Hún hóf störf við Kennaraháskóla Íslands árið 1971 og varð fyrsti prófessor við skólann 1973. Þá gegndi hún starfi aðstoðarrektors Kennaraháskólans á árunum 1983-1987. Þuríður lét af störfum við skólann árið 1989.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 

Nánari upplýsingar um sjóðinn og aðra sjóði í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is, sími 525-5894.

Nemendur í Háskóla unga fólksins