Stýra hönnun alþjóðlegrar könnunar á heilsu | Háskóli Íslands Skip to main content

Stýra hönnun alþjóðlegrar könnunar á heilsu

7. júní 2018
""

Vísindamönnum við Háskóla Íslands hefur verið falið að leiða hönnun á spurningalista Alþjóðlegu viðhorfakönnunarinnar (International Social Survey Programmea – ISSP) árið 2021 en hún er lögð fyrir í yfir 40 löndum víða um heim, þar á meðal á Íslandi. Í könnuninni verður leitað svara við spurningum sem tengjast heilsu á ýmsan hátt. 

Þær Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofunar Háskóla Íslands, munu leiða þessa vinnu en báðar hafa þær tekið þátt í vinnu við kannanir á vegum ISSP hér á landi áður. Könnun ISSP er lögð fyrir í rúmlega 40 löndum en hún var sett á laggirnar árið 1985. Hún hefur verið lögð fyrir nánast árlega síðan 2009 en það voru Sigrún og Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði, sem höfðu forgöngu um þátttöku Íslands í þessu verkefni. 

„Á hverju ári eru sex lönd kosin til að bera ábyrgð á spurningalista í framtíðinni og síðan eitt til að leiða starfið. ISSP spyr almennt um sama málefnið á 10 ára fresti og árið 2011 var spurt um heilsu í fyrsta skipti. Á fundi ISSP fyrr á þessu ári var samþykkt að endurtaka heilsukönnunina 2021 og voru fulltrúar Íslands kosnir í hópinn sem semja á spurningar fyrir könnunina. Í framhaldinu ákvað hópurinn sem samanstendur af Íslandi, Indlandi, Tékklandi, Ísrael og Suður-Afríku að Ísland myndi leiða starfið,“ segir Sigrún. 

Hún bendir á að þar sem um endurtekna könnun sé að ræða sé hópnum, sem kemur að könnuninni, settar ákveðnar skorður en spurt sé m.a. um viðhorf til heilbrigðiskerfisins og læknastéttarinnar, réttlæti/óréttlæti í kerfinu og heilsutengda hegðun og heilsufar. „Tveir þriðju hlutar af spurningunum þurfa að vera endurteknir samkvæmt reglum ISSP en það gefur okkur færi á að semja nýjar spurningar fyrir þriðjung könnunarinnar ásamt því að ákvarða hvaða spurningar sé mikilvægast að endurtaka. Þess má þó geta að þrátt fyrir að ákveðin lönd leiði vinnuna kjósa að lokum fulltrúar allra þátttökulanda um hvaða spurningar eru lagðar fyrir,“ segir Guðbjörg Andrea. 

Ísland tók ekki þátt í heilsukönnuninni árið 2011 en gögnin frá því ári hafa engu að síður nýst íslenskum vísindamönnum og samstarfsfólki vel. Þess má geta að Sigrún og Jason Beckfield, prófessor við Harvard-háskóla og gestaprófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, verða gestaritstjórar sérheftis vísindaritsins Social Science and Medicine sem mun koma út á næsta ári en þema þess eru alþjóðlegar rannsóknir á ójöfnuði í heilsu og þar er m.a. stuðst við niðurstöður úr Alþjóðlegu viðhorfakönnuninni.

Mikilvægt að bera okkar veruleika saman við veruleika annarra þjóða
Íslendingum er tamt að bera sig saman við nágrannaþjóðirnar á ýmsan hátt en til þess að slíkur samanburður verði raunhæfur þarf hann að byggjast á traustum gögnum. „Ég hef lagt áherslu á mikilvægi þess að Ísland taki þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum síðastliðin 10-15 ár. Þrátt fyrir að íslenskur veruleiki sé áhugaverður tel ég mikilvægt að hægt sé að bera viðhorf okkar og veruleika saman við önnur lönd,“ segir Sigrún.

Hún bendir enn fremur á að þátttaka í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum með langa sögu gefi vísindafólki minni möguleika á að stjórna því hvert viðfangsefnið er. „En kosturinn er að slíkar kannanir beina sjónum að fjölbreyttum viðfangsefnum.“

Í nýjustu könnun ISSP, sem unnin var á síðasta ári og Sigrún og Guðbjörg Andrea komu að, var rýnt í viðhorf almennings til hlutverks stjórnvalda og spillingar í samfélaginu. „Niðurstöður sýndu m.a. 99% svarenda á Íslandi telja að ríkið eigi að bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustu og sjá um að veita öldruðum viðunandi lífsskilyrði og 93% vilja sjá meiru varið til heilbrigðismála. Einnig virðist umræða um spillingu í þjóðfélaginu endurspeglast í viðhorfum almennings, en 72% telja nokkra, marga eða nánast alla stjórnmálamenn viðriðna spillingu,“ segja þær stöllur. 

Sigrún og Guðbjörg Andrea hafa hafa einnig komið að ýmsum öðrum alþjóðlegum rannsóknum, svo sem evrópsku félagsvísindakönnuninni og evrópsku lífsgildakönnuninni.  Kannarnirnar eru allar mikilvægar að þeirra sögn því þær varpi ljósi á tengsl einstaklings og samfélags. „Rannsóknir á þessum tengslum gera okkur kleift að meta hvort stærri samfélagslegir þættir hafa áhrif á viðhorf og reynslu einstaklinga. Að auki gefa rannsóknirnar innsýn inn í hvernig samfélag meirihlutinn vill og hvort ágreiningur sé á milli ólíkra hópa, til dæmis eftir menntun, tekjum, kyni eða stjórnmálaskoðun.“ 

Sigrún Ólafsdótti, prófessor í félagsfræði, og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar.