Stúdentum áfram boðið upp á hópmeðferð við sálrænum vanda | Háskóli Íslands Skip to main content

Stúdentum áfram boðið upp á hópmeðferð við sálrænum vanda

9. janúar 2019
""

Sálfræðiráðgjöf háskólanema heldur áfram að bjóða upp hópmeðferð fyrir nemendur sem vilja bæta geðheilsu sína og takast á við sálrænan vanda á vormisseri. Meðferðin er nú opin nýjum þátttakendum en hún hefur gefið afar góða raun.

Hópmeðferðin er tilraunaverkefni sem ýtt var úr vör í Háskóla Íslands haustið 2018 undir yfirskriftinni SÁLRÆKT. Gert er ráð fyrir að í hópi séu 10 manns sem fá leiðsögn doktorsnema í sálfræði og sérfræðings í klínískri sálfræði. Fundir fara fram vikulega, á föstudögum kl. 13-14.30 í Nýja-Garði, og er þjónustan alveg ókeypis. Fyrsti fundur í hópmeðferðinni á vormisseri fer fram föstudaginn 11. janúar og geta áhugasamir sent póst á hopmedferd@hi.is með nafni sínu og símanúmeri til að sækja um þátttöku. Í framhaldinu hafa fulltrúar frá sálfræðiráðgjöfinni samband og boða viðkomandi til inntökuviðtals. 

Að sögn Gunnars Hrafns Birgissonar, forstöðumanns Sálfræðifráðgjafar háskólanema, kemst takmarkaður fjöldi að í hópmeðferðinni í einu en þegar nemandi hefur náð markmiðum sínum er hann útskrifaður og þá opnast pláss fyrir nýja þátttakendur í verkefninu. Alls tóku 14 nemendur þátt í hópmeðferðinni á haustönn en það er um þriðjungur þeirra sem sóttust eftir að komast að. Það er því ljóst að mikil eftirspurn er eftir þjónustu sem þessari.

Gunnar segir aðspurður að hópmeðferð við sálrænum vanda hafi ýmsa kosti. „Sálfræðingar ná til margra í einu þannig að tími nýtist vel. Að þessari meðferð vinnum við fjórir sálfræðingar svo að þáttakendur kynnast mismunandi stíl þeirra og aðferð við meðferðina. Þátttakendur kynnast líka og læra hverjir af öðrum. Þeir hjálpast að, sem er mikilvægt meðal annars vegna þess að það að hjálpa öðrum lætur fólki sjálfu líða betur. Það er lærdómsríkt og hefur styrkjandi áhrif á fólk að verða vitni að því að aðrir vinni að sínum málum og nái árangri í að fást við sálrænan vanda. Þannig eru þátttakendur í hópmeðferð ekki bara þiggjendur meðferðar heldur líka virkir þátttakendur í að hjálpa öðrum,“ bendir hann á.

Hann segir hópmeðferðina henta fólki með fjölbreyttan vanda sem tengist erfiðum tilfinningum, hegðun eða samskiptum fólks. Vandinn sé metinn hjá hverjum og einum og nemendum sé hjálpað að þekkja óhjálplegar hugsanir og tileinka sér röklega hugmyndafræði sem geti stuðlað að bættri líðan.  „Hver og einn þátttakandi fæst við afmarkaða þætti hverju sinni og vinnur í átt að settu markmiði sínu,“ bætir Gunnar við.

SÁLRÆKT er ekki eina úrræðið sem Sálfræðiráðgjöf háskólanema, sem starfrækt hefur verið innan Sálfræðideildar háskólans frá árinu 2013, býður upp á. Þar er einnig í boði einstaklingsmeðferð fyrir nemendur háskólans og börn þeirra gegn afar vægu gjaldi. Markmið sálfræðiráðgjafarinnar er í senn að þjálfa framhaldsnema í sálfræði í klínískum störfum og veita bæði háskólanemum og börnum þeirra sálfræðiþjónustu. Frá upphafi hafa rúmlega 120 sálfræðinemar hlotið þar starfsþjálfun og skipta málin sem komið hafa til kasta þeirra hundruðum. Við Sálfræðiráðgjöf háskólanema er fengist við vanda af ýmsu tagi, t.d. kvíða, depurð, frestanahneigð, fullkomnunaráráttu, lágt sjálfsmat, svefntruflanir, félagsfælni og fleira.

Nánari upplýsingar um SÁLRÆKT má finna á vefsíðu Sálfræðideildar.
 

Gunnar Hrafn Birgisson