Skip to main content
29. apríl 2021

Strokkvartettinn Siggi í streymi á síðustu Háskólatónleikum skólaársins

Strokkvartettinn Siggi í streymi á síðustu Háskólatónleikum skólaársins - á vefsíðu Háskóla Íslands

Strokkvartettinn Siggi slær botninn í Háskólatónleikaröðina þennan veturinn með tónleikum á Litla-Torgi Háskólatorgs föstudaginn 30. apríl kl. 12.15. Tónleikarnir verða í beinu streymi í ljósi samkomutakmarkana.

Strokkvartettinn Siggi var stofnaður árið 2012 og hefur síðan þá verið áberandi í tónleikahaldi og leikið Beethoven og Shostakovich auk fjölda nýrra verka sem samin hafa verið sérstaklega fyrir Sigga. Listamenn Sigga eru virkir sem einleikarar og kammerspilarar og leika í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur. Strokkvartettinn skipa Una Sveinbjarnardóttir og Helga Þóra Björgvinsdóttir á fiðlur, Þórunn Ósk Marinósdóttir á víólu og Sigurður Bjarki Gunnarsson á selló.

Kvartettinn hefur reynt sig við fjölbreyttustu verkefni, lék t.d. fimm tíma langt verk eftir Morton Feldman í Mengi árið 2018, gaf út lofaða plötu árið 2019 (South of the Circle á Sono Luminus) og lék inn á margverðlaunaða Philip Glass plötu Víkings Ólafssonar. Atli Heimir Sveinsson, Jóhann Jóhannsson, Björk, S.L.Á.T.U.R. og bedroom community eru á meðal þeirra fjölmargra sem hafa fengið að njóta óskoraðra hæfileika þessa umtalaða kvartetts.

Tónleikarnir fara fram föstudaginn 30. apríl eins og fyrr segir og hefjast leikar kl. 12.15. Tónleikunum verður streymt líkt og verið hefur með alla tónleika þessa starfsárs. Einnig er hægt er að njóta tónleikana síðar í upptökuformi. Allir velkomnir og aðgangur gjaldfrjáls.

Slóð á streymið

Nánar um Háskólatónleika

Strokkvartettinn Siggi