Skip to main content
30. júní 2020

Stór verkefni bíða nýs stúdentaforingja

Stór verkefni bíða nýs stúdentaforingja - á vefsíðu Háskóla Íslands

Isabel Alejandra Díaz á eflaust aldrei eftir að gleyma vorinu 2020. Hún hefur líkt og aðrir nemendur Háskóla Íslands staðið í ströngu við að ljúka skólaárinu við afar krefjandi aðstæður kófsins, þar á meðal að skila lokaverkefni í BA-námi í stjórnmálafræði og spænsku við skólann. Þessu til viðbótar hefur hún staðið í framlínunni í hagsmunabaráttu stúdenta við breyttar samfélagsaðstæður því hún var að dögunum kjörin forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands og mun þar að auki sitja í háskólaráði fyrir hönd stúdenta næstu tvö ár. Isabel er spennt fyrir krefjandi verkefnum á hundrað ára afmælisári Stúdentaráðs og segir mikilvægt að stjórnvöld tryggi betur fjármögnun Háskólans svo að íslenskir stúdentar standi jafnfætis jafnöldrum sínum í norrænum háskólum.

Isabel, sem lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 2016 og hóf nám í Háskólanum ári síðar, segist aðspurð ekki hafa ætlað sér í stúdentpólitíkina þótt hún hafi vissulega þekkt til hennar þegar hún hóf nám. „En það var haft samband við mig frá Röskvu stúdentahreyfingu og mér boðið á kynningu. Ég fór á hana og þá fór boltinn að rúlla, ég sótti um stöðu nýliðafulltrúa í stjórn Röskvu í október 2017 og hef verið í innra og ytra starfinu síðan þá,“ segir Isabel sem var m.a. varaforseti Röskvu og varafulltrúi í Stúdentaráði áður en hún var kjörin forseti Stúdentaráðs nú í vor, fyrst einstaklinga af erlendum uppruna. 

Tilbúin í áskoranir sem fylgja breyttum samfélagsaðstæðum

Aðspurð hvers vegna hún hafi ákveðið að gefa kost á sér sem forseti Stúdentaráðs segist hún hafa verið spennt fyrir þeim áskorunum sem nú blasa við. „Hagsmunabarátta stúdenta hefur verið ótrúlega öflug síðustu 2-3 árin og höfum við náð að beita okkur út fyrir háskólasamfélagið. Við höfum náð eyrum margra, vísað er í okkur í pontu á Alþingi og miklar breytingar hafa átt sér stað í háskólasamfélaginu. Stúdentapólitík hefur einkennt háskólagöngu mína og ég vissi að mig langaði að halda áfram að beita mér fyrir bættum kjörum stúdenta þó að grunnnáminu mínu væri að ljúka. Það var einnig ljóst í febrúar/mars að næstu mánuðir lituðust af óvissu vegna aðstæðna í samfélaginu og ég vissi að ég væri tilbúin í þær áskoranir. Ég sá enga fyrirstöðu og taldi mína krafta best nýtta á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs þannig að ég ákvað að gefa kost á mér,“ segir hún.

Samhliða forsetastarfinu mun Isabel einnig taka sæti sem annar fulltrúa stúdenta í háskólaráði Háskóla Íslands og getur þannig haft áhrif á starf og stefnu skólans. „Ákvarðanir sem eru teknar þar snúa að okkur líka og eru oft og tíðum í beinum tengslum við hagsmuni stúdenta. Við eigum að geta tjáð okkur og á síðustu árum hefur það hiklaust borið árangur. Auðvitað koma upp erfið mál en þess vegna er lykilatriði að skilja hvert annað til þess að komast að skotheldri niðurstöðu í málum,“ segir hún.

isabel_rektor

Isabel fundaði á dögunum með Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, skömmu eftir að hún tók við embætti forseta Stúdentaráðs. MYND/Kristinn Ingvarsson

Isabel segir ótal mál brenna á stúdentum, bæði mál sem tengjast COVID-19 og samfélagsáhrifum faraldursins og hagsmunamál til lengri tíma. Sjálf segist hún vilja leggja áherslu á fjögur til fimm stór mál sem forseti Stúdentaráðs. „Það þarf að lækka skrásetningargjaldið svo Háskóli Íslands standi jafnfætis háskólum annars staðar á Norðurlöndunum en við borgum allt að fimmfalt meira hér til að stunda nám í opinberum skóla - jafnvel meira en einkareknir háskólar kosta í nágrannalöndum okkar,“ segir hún.

„Svo þarf að tryggja stúdentum atvinnuleysisbætur. Stúdentaráð hefur sýnt fram á að af launum stúdenta er greitt atvinnutryggingagjald til atvinnuleysistryggingasjóðs, eins og hjá öllu vinnandi fólki, en samt hafa stúdentar ekki aðgang að þeim sjóði. Verði stúdent án atvinnu á hann því engan rétt á bótum,“ segir Isabel og bætir við: „Það er eins og stendur ekkert öryggisnet til staðar verði bakslag eða annar faraldur í framtíðinni og því verður að breyta, við þurfum langtímalausn,“ segir Isabel. Hún bendir jafnframt á að  vinnandi stúdentar hafi haft rétt til atvinnuleysisbóta í námshléum til 1. janúar 2010 og samhliða þeirri breytingu sem þá varð gerð hefði átt að breyta fyrirkomulaginu þannig að atvinnutryggingagjald rynni ekki í sjóð sem stúdentar hafa síðan ekki aðgang að.  

Sjálfbærara háskólasamfélag og öflugri geðheilbrigðisþjónusta fyrir stúdenta

Annað mikilvægt baráttumál stúdenta er sjálfbærara háskólasamfélag þar sem stúdentar geti sótt helstu þjónustu í nærumhverfi sitt. „Við bindum vonir við U-passann á þessu starfsári, sem er samgöngukort fyrir stúdenta og við vonumst til að þörfin á einkabílnum minnki gríðarlega í kjölfarið. Þetta er bara byrjunin ásamt líkamsræktinni sem er væntanleg á háskólasvæðið en við höfum einnig talað um að fá lágvöruverðsverslun á svæðið, sem kæmi sér vel fyrir stúdenta, íbúa á stúdentagörðunum og í kring og starfsfólk háskólans og fyrirtækja á svæðinu. Þar að auki höfum við lagt áherslu á að það sé heilsugæsla á svæðinu,“ bendir hún á.

Geðheilbrigðismál brenna einnig á stúdentum og Isabel segir gríðarlega góða vinnu hafa farið fram innan Háskólans í þeim málum á síðustu tveimur árum. „Forseti Stúdentaráðs situr til að mynda núna í starfshópi þar sem m.a. geðheilbrigðisúrræði eru rædd og fjárúthlutun í þann málaflokk. Þetta er eitt mikilvægasta baráttumál stúdenta vegna þess að það snýr beint að lífskjörum þeirra, andlegri og líkamlegri heilsu. Margir stúdentar vinna samhliða námi til að eiga fyrir útgjöldum sínum en það getur leitt til mikillar streitu og álags á stúdenta,“ segir Isabel og bætir við að Háskólinn hafi eftir bestu getu reynt að koma til móts við stúdenta á þeim erfiðu tímum sem gengið hafa yfir síðustu vikurnar. „Hann hefur gert það hratt en örugglega, með litlum sem engum fyrirvara og vert er að benda á það,“ bætir Isabel við.

Of margir stúdentar þurfa að vinna of mikið með námi

Isabel bendir enn fremur á að nám sé 100% vinna en lánasjóðskerfið og aðstæður hér á landi geri mjög fáum stúdentum kleift að einbeita sér að fullu að námi. Stúdentar séu hlynntir kerfisbreytingum á Menntasjóði námsmanna en það gerir ráð fyrir styrktarkerfi að norrænni fyrirmynd þar sem lántakar sem uppfylla tilsett skilyrði eiga möguleika á 30% niðurfellingu á höfuðstól námslánsins við námslok. „Við höfum lengi kallað eftir þessu en hins vegar höfum við bent á að grunnhugsjón sjóðsins um að námslánakerfið standi undir sér sé ekki réttmæt. Stúdentaráð hefur sýnt fram á að ef hvatakerfið virkar þá fara stúdentar fyrr út á vinnumarkaðinn og samkvæmt útreikningum mun það skila skatttekjum og sparnaði í skólakerfið uppá 1-3 milljarða króna. Við erum þeirrar skoðunar að sá peningur ætti að renna aftur til sjóðsins og tryggja lántökum góð kjör og viðunandi framfærslu,“ segir hún.

Alltof margir stúdentar neyðast til að vinna með námi þótt þeir taki framfærslulán því það dugar þeim ekki. Frítekjumark skerðir lán stúdenta og því lenda þeir í vítahring þar sem þeir neyðast til að vinna enn þá meira til að geta framfleytt sér. „Við vonumst til þess að sjá breytingar á þessu með nýjum sjóði, en það er undir stjórn sjóðsins að ákvarða grunnframfærslu lána með úthlutunarreglunum.“ 

Undirfjármögnun skólans leiðir til að mynda til þess að gæðum kennslu hrakar, námsaðstoð og sértæk þjónusta verður af skornum skammti sem og námsaðstaða,“ segir Isabel og bætir við að of lítið fjármagn komi líka niður á námsframboði sem hefur áhrif á námsframvindu stúdenta. „Undirfjármögnun skólans í hvaða mynd sem hún birtist er veruleg hindrun að menntun.“ MYND/Kristinn Ingvarsson

Lykilatriði að tryggja Háskólanum aukið fjármagn

Þegar talið berst að háskólastarfinu bendir Isabel á að fram undan sé stór áskorun fyrir Háskólann vegna yfirvofandi fjölgunar nemenda í haust. „Við þurfum að vera á tánum gagnvart því hvernig fjölgun kann að vega að gæðum náms. Engin slík vandamál hafa enn komið í ljós en eðli málsins samkvæmt þarf að gera ráðstafanir. Þetta var vandamál eftir hrun þegar námsmönnum fjölgaði og þurfum við að fyrirbyggja mistök sem gerð voru þá og þrýsta á betri útkomu fyrir háskólastigið og stúdenta,“ segir Isabel.

Til að tryggja að skólinn geti sinnt grunnstarfsemi sinni sé lykilatriði að auka framlög til háskólastigsins. „Undirfjármögnun skólans leiðir til að mynda til þess að gæðum kennslu hrakar, námsaðstoð og sértæk þjónusta verður af skornum skammti sem og námsaðstaða,“ segir hún og bætir við að of lítið fjármagn komi líka niður á námsframboði sem hefur áhrif á námsframvindu stúdenta. „Undirfjármögnun skólans í hvaða mynd sem hún birtist er veruleg hindrun að menntun,“ segir hún enn fremur.

Flottir fulltrúar Stúdentaráðs víða í samfélaginu

Sem fyrr segir fagnar Stúdentaráð Háskóla Íslands aldarafmæli síðar á þessu ári og aðspurð segist Isabel vonast til að samfélagsaðstæður leyfi það að hægt verði að fagna því með veglegum hætti í haust. „Það er klárt mál að fögnuðurinn þarf að halda áfram með einhverjum hætti, stúdentar eiga það það skilið sem og öll þau sem hafa tekið þátt í starfinu með einhverjum hætti. Við eigum ótrúlega flotta fulltrúa í samfélaginu sem stigu sín fyrstu skref í stúdentapólitíkinni við Háskóla Íslands og framlag þeirra til háskólasamfélagsins verið metið mikils. Það að stúdentar hafi sinnt hagsmunagæslu í 100 ár er virðingarvert og ber að fagna. Það hefur ótrúlega margt gerst á þessum árum, við höfum verið leiðandi afl og höldum ótrauð áfram í baráttunni,“ segir hún. 

isabel_brautskraning

Isabel tekur við brautskráningarskírteini sínu í Laugardalshöll um helgina. MYND/Kristinn Ingvarsson

Utanríkisþjónustan heillar

Isabel hafði sannarlega ástæðu til að gleðjast um helgina en hún var í hópi kandídata sem tóku við brautskráningarskírteini sínu við útskrift Háskóla Íslands í Laugardalshöll. Hún státar nú af BA-gráðu í stjórnmálafræði og spænsku sem aukagrein. Í lokaverkefni sínu sameinaði hún stjórnmála- og spænskuáhugann með rannsókn á sjálfstæðisbaráttu Katalóníu, sem verið hefur mikið í fréttum undanfarin misseri, og möguleika þessa spænska héraðs til sjálfstæðis í framtíðinni. Þar kemst Isabel m.a. að þeirri niðurstöðu að lagalega sé slíkt ekki útilokað en bæði andstaða Spánar og ósamstaða innan héraðsins standi gegn því enn um sinn.

En hvað skyldi taka við hjá Isabel þegar forystuhlutverki hennar fyrir stúdenta lýkur á næsta ári? Hún segist augljóslega hafa mikinn áhuga á stjórnmálum en einnig sögu og tungumálum ólíkra menningarheima og að rýna í samfélagsbreytingar og þróun þeirra. „Þetta færðu allt beint í æð í stjórnmálafræði. Samanburðarstjórnmálin heilluðu mig örugglega mest því slíkur samanburður víkkar sjóndeildarhringinn gríðarlega, það er líka ekki allt klippt og skorið þegar kemur að stjórnfari eða stjórnkerfum, sem er svo merkilegt. Vegna þessa hyggst ég fara í meistaranám í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands eftir ár og þá samhliða öðru árinu mínu í háskólaráði. Mig langar mikið að fara í skiptinám seinna árið í meistaranáminu og svo verð ég að sjá til, eins og stendur er það utanríkisþjónustan sem heillar mig!“ segir hún að endingu.

Isabel Alejandra Diaz