Skip to main content
26. mars 2018

Stór styrkur til rannsóknar á áhrifum hryðjuverkaógnar

Þrír fræðimenn við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands og norrænir samstarfsfélagar þeirra hafa fengið rúmlega 120 milljóna króna styrk frá Nordforsk til að rannsaka áhrif hryðjuverkaógnar á borgara og einnig áhrif lagasetningar gegn hryðjuverkum á viðhorf fólks til lýðræðis og trausts á stjórnvöldum.

Nordforsk er  norræn stofnun sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og hefur umsjón með og styrkir rannsóknasamtarf á Norðurlöndum.  Stofnunin úthlutaði á dögunum þremur styrkjum til rannsókna sem tengjast örygg samfélaga á Norðurlöndum undir áætluninni The Underpinnings of Nordic Societal Security. Alls bárust 17 umsóknir um styrki úr áætluninni en rannsóknarverkefnin þrjú sem fengu styrk að þessu sinni fá hvert um sig 9,5 milljónir norskra króna, jafnvirði um 124 milljóna íslenskra króna. 

Eitt þeirra þriggja verkefna sem hljóta styrk er „Hryðjuverkaógn á Norðurlöndunum: Áhrif á borgara, lagasetningar og lögmæti (The Challenge from Terrorism in the Nordic Countries: An analysis of citizens’ reactions, policy responses and legitimacy)“. Meðal aðstandenda þess eru þau Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, Hulda Þórisdóttir, dósent í stjórnmálafræði, og Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði. Verkefnið lýtur forystu Dag Arne Christensen frá UNI Research AS í Noregi en auk þeirra koma fræðimenn Háskólanum í Bergen og Gautaborgarháskóla að verkefninu. 

Lýðræðisríkjum, þar á meðal norrænu ríkjunum, stendur mikil ógn af hryðjuverkum sem skapa þrýsting á lýðræðislega kjörin stjórnvöld. Eitt af mikilvægustu verkefnum þeirra er að tryggja öryggi borgaranna. Ef borgarar upplifa óöryggi og að lögum og reglum sé ekki framfylgt getur það grafið undan trausti á stjórnvöldum. Aðgerðir til að tryggja öryggi borgara geta þó einnig grafið undan grunnstoðum lýðræðisins. Harðar aðgerðir eins og húsleitir án heimilda, handtökur, símahleranir og langt gæsluvarðhald án dómsúrskurðar geta legið beint við til að tryggja öryggi borgaranna en um leið eru þær í andstöðu við borgaraleg réttindi. Mikil togstreita getur því skapast á milli öryggissjónarmiða og frelsissjónarmiða í ríkjum sem byggja á lýðræðisgildum. 

Meginrannsóknarspurning verkefnisins er hversu vel lýðræðisríki geti staðið af sér þá ógn sem þau standa frammi fyrir vegna hryðjuverka. Í verkefninu verður leitast við að svara henni með greiningu fyrirliggjandi gagna úr fjölþjóðlegum spurningakönnunum og söfnun nýrra gagna í þremur rannsóknarverkefnum sem hafa eftirfarandi þemu:

  1. Hefur óttinn við hryðjuverk það mikil áhrif á borgara að þeir séu tilbúnir til að fórna borgaralegum réttindum?;
  2. Hversu mikil áhrif hafa lagasetningar gegn hryðjuverkum á viðhorf fólks til lýðræðis og traust þess á stjórnvöldum og lögmæti þeirra?; 
  3. Hver eru tengsl mismunandi stjórnskipulags og ótta borgara við hryðjuverk?

Af heildarstyrknum til verkefnisins koma 32,5 milljónir króna í hlut Háskóla Íslands.

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Hulda Þórisdóttir og Gunnar Helgi Kristinsson
""