Stór hópur nemenda í rannsókna- og nýsköpunarverkefnum í sumar | Háskóli Íslands Skip to main content
7. apríl 2021

Stór hópur nemenda í rannsókna- og nýsköpunarverkefnum í sumar

Stór hópur nemenda í rannsókna- og nýsköpunarverkefnum í sumar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stór hópur nemenda af öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands mun vinna að spennandi rannsókna-, þróunar- og nýsköpunarverkefnum í sumar með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Úthlutað var úr sjóðnum á dögunum og hljóta á áttunda tug verkefna sem tengjast Háskóla Íslands styrk að þessu sinni. 

Nýsköpunarsjóður námsmanna gerir háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum kleift að ráða grunn- eða meistaranema við háskóla til sumarvinnu við rannsókna- og þróunarverkefni. Aðstandendur verkefnanna skila svo sjóðnum skýrslu í lok sumars og á grundvelli þeirra eru 5-6 verkefni tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Þess má geta að nemendur Háskóla Íslands hlutu ásamt nemanda Háskólans í Reykjavík verðlaunin í ár fyrir verkefni sem þau unnu á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna í fyrrasumar.

Alls bárust sjóðnum 642 umsóknir um styrki í ár fyrir 950 háskólanema. Að þessu sinni hlutu 206 verkefni styrki samanlagt að upphæð 311 milljónir króna. Í styrktum verkefnum er 351 nemandi skráður til leiks í alls 1037 mannmánuði. Sem fyrr segir hlaut á áttunda tug verkefna, sem unnin verða innan Háskóla Íslands eða nátengdra stofnana, styrk að þessu sinni. Þá má búast við því að fjölmargir nemendur skólans komi að styrktum verkefnum á vegum annarra stofanana og fyrirtækja víða um land.

Verkefnin sem hljóta styrk að þessu sinni eru innan allra fimm fræðasviða skólans. Þau snerta m.a. aukna þátttöku fjarstaddra feðra í umönnun barna, betri gjörgæslumeðferð með gagnasjá, kennsluefni fyrir börn með íslensku sem annað mál, lýðvirkjun í baráttunni við loftslagsbreytingar, fæðuumhverfi í matvöruverslunum, sögur af íslenska fjárhundinum, kynhlutlaust mál, stelpur sem diffra, sýndarbókasafn Þingeyraklausturs og þróun matstækis á viðhorfum til transfólks.

Yfirlit yfir styrki Nýsköpunarsjóðs námsmanna í ár má finna á vef Rannís sem heldur utan um sjóðinn.
 

Þau Ari Kvaran, Sunneva Sól Ívarsdóttir, Þórdís Rögn Jónsdóttir og Ísól Sigurðardóttir unnu að verkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna í fyrrasumar og hlutu Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir það.