Skip to main content
18. janúar 2021

Stjórnmál og #MeToo-hreyfingin

Stjórnmál og #MeToo-hreyfingin - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin The Routledge Handbook of the Politics of the #MeToo Movement í ritstjórn fræðikvennanna Irmu Erlingsdóttur og Giti Chandra sem báðar starfa við Háskóla Íslands. Það er Routledge-bókaforlagið sem gefur bókina út. Bókin hefur að geyma 31 kafla eftir 38 höfunda. Í hópi þeirra eru heimsþekktir kenningasmiðir, en einnig ungir aðgerðasinnar og fræðimenn víðs vegar að úr heiminum. Meðal kaflahöfunda eru Angela Davis, Catharine MacKinnon, Cynthia Enloe, Jack Halberstam, Jeff Hearn og Marai Larasi.

Túlka má #MeToo-hreyfinguna sem viðbrögð við kerfi sem er byggt upp með þeim hætti að það getur ekki annað en brugðist þeim sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og áreitni.  #MeToo-hreyfingin hefur þegar markað þáttaskil. Nýnæmi hennar felst í breiðari þátttöku og samstöðu í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og hatursorðræðu en áður hefur þekkst. Hún hefur einnig leitt til alþjóðlegrar viðurkenninngar á útbreiðslu vandans og pólitískrar viðhorfsbreytingar, þar sem áhersla er lögð á kerfislægt misrétti.

Í bókinni er fjallað um #MeToo-hreyfinguna í alþjóðlegu samhengi frá því að myllumerkið tók samfélagsmiðla yfir í lok árs 2017. Varpað er ljósi á staðbundna og hnattræna þróun hreyfingarinnar og áhrifamátt, en einnig takmörk hennar og þær hindranir sem hún hefur mætt. Fjallað er um #MeToo hreyfinguna út frá ólíkum sjónarhornum, bæði í ljósi femínísks aktivisma og fræðanna, m.a. stjórnmálafræði, sagnfræði, félagsfræði, lögfræði, bókmenntafræði og heimspeki. Bókin á jafnt erindi við fræðasamfélagið, grasrótina og almenning.

Kaflahöfundar eru í íslenskri stafrófsröð: Angela Davis, Anne-Emmanuelle Berger, Anna Sedysheva, Audrey Roofeh, Bibia Pavard, Catharine MacKinnon, Cass R. Sunstein, Cynthia Enloe, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Edmé Domínguez, Esther Waweru,  Florence Rochefort, Freyja Haraldsdóttir, Giti Chandra, Irma Erlingsdóttir, Jack Halberstam, Jeff Hearn, Judy Gitau, Karen Boyle, K. Kanyali Mwikya, Li Jun, Lisa Salmonsson,  Magdalena Grabowska, Marai Larasi, Marifran Carlson, Marta Rawłuszko, Michelle Zancarini-Fournel, Mirela Violeta David, Nanna Hlín Halldórsdóttir, Nkiru Balonwu, Pamela L. Runestad, Purna Sen, Robert O'Mochain, Rochelle McFee, Rym Tina Ghazal, Tamara Shefer, Tigist Shewarega Hussen og Vinita Chandra.  

Bókin var unnin í samstarfi við Jafnréttisskólann, RIKK og rannsóknasetrið EDDU og hlaut styrk úr Jafnréttissjóði Íslands.

Út er komin bókin The Routledge Handbook of the Politics of the #MeToo Movement í ritstjórn fræðikvennanna Irmu Erlingsdóttur og Giti Chandra.