Skip to main content
23. nóvember 2021

Sterk skilaboð frá nemendum og sérfræðingum á Aurora-ráðstefnu 

Sterk skilaboð frá nemendum og sérfræðingum á Aurora-ráðstefnu  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í síðustu viku hélt hópur nemenda og starfsmanna frá Háskóla Íslands til Tarragona á Spáni. Tilgangur ferðarinnar var að taka þátt í ráðstefnunni Aurora Autumn Biannual sem University of Rovira i Virgili skipulagði en um er að ræða þá elleftu sem hefur verið haldin síðan Aurora samstarfið hófst árið 2016. 

Ráðstefnan hófst með ávarpi frá Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ og forseta Aurora. Í ávarpi sínu þakkaði hann starfsfólki og nemendum Aurora-háskólanna fyrir þá miklu og metnaðarfullu vinnu sem þeir hafa unnið síðastliðið ár í krefjandi aðstæðum. Minnti hann á að Aurora er brautryðjandi í samstarfi háskóla á heimsvísu. Ráðstefnan væri kjörið tækifæri til að fagna þeim árangri sem hefur náðst hingað til en einnig til að ræða þær áskoranir sem Aurora stendur frammi fyrir og stilla saman strengi í áætlunum háskólanna til að yfirstíga þær. Á ráðstefnunni funduðu rektorar Aurora-háskólanna einmitt í þessum tilgangi og til að tryggja góðan árangur í þeim verkefnum sem nú eru styrkt af Evrópusambandinu. Þá undirrituðu háskólarnir nýjan marghliða samstarfssamning sín á milli sem gerir nemendum og starfsfólki þeirra kleift að stunda skiptinám og gestakennslu á flestum fræðasviðum í öllum Aurora-háskólunum.

Hlýða má á ávarp rektors í myndbandi hér fyrir neðan. 

Nemendur með skýra framtíðarsýn

Rödd nemenda var áberandi á ráðstefnunni og sendu þeir sterk skilaboð um sína sýn á háskóla framtíðarinnar. Daganna 13.-15. nóvember tóku sjö HÍ nemendur þátt í vinnustofu í Tarragona undir yfirskriftinni Aurora Student Design Jam ásamt stórum hópi nemenda frá hinum Aurora-háskólunum. Á vinnustofunni fengu nemendur að kynnast „design thinking“ aðferðafræði og beita henni undir handleiðslu sérfræðinga. Niðurstaðan var nýjar lausnir fyrir háskóla, hannaðar af nemendum, til að gefa öllum nemendum færi á því að hljóta alþjóðalega reynslu í námi.

Þessar lausnir voru svo kynntar af nemendunum á ráðstefnunni. Beindu þau sérstaklega sjónum sínum að fjölbreyttari tækifærum í alþjóðlegu samstarfi fyrir nemendur og öflugra kynningarstarfi svo unnt sé að ná til fjölbreyttari hóps. Einnig lögðu þau áherslu á það hvernig megi vinna markvisst gegn fordómum sem alþjóðlegir nemendur geta orðið fyrir í gestalandinu og fyrirbyggja kvíða og efla geðheilsu nemenda meðan á námsdvöl erlendis stendur. Eitt af því sem nemendur lögðu til er að nýta samfélagsmiðla í meira mæli til að gera tækifæri og markmið Aurora skýrari og starfsemi Aurora-stúdentaráðsins aðgengilegri fyrir nemendur. Áhugasamir geta nú fylgt Aurora stúdentaráðinu á nýjum Instagram-reikningi þar sem jafnframt má skyggnast bakvið tjöldin á vinnustofunni. 

Alma Ágústsdóttir, alþjóðafulltrúi SHÍ og forseti Aurora-stúdentaráðsins, hélt erindi þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi þess að nemendur taki virkan þátt í því að móta Aurora samstarfið. Áhugi nemenda á Aurora Student Design Jam væri til marks um það að nemendur vilji og geti tekið þátt í að byggja upp og bæta Aurora-samstarfið. Benti hún jafnframt á að virkt samstarf háskólanna með nemendum, sérstaklega þeim sem eiga sæti í Aurora-stúdentaráðinu, sé forsenda þess að Aurora geti notið góðs af sköpunar- og drifkrafti nemenda.

Alþjóðavæðing í þágu samfélagsins

Þá var alþjóðavæðing miðpunkturinn í pallborðsumræðum þar sem sérfræðingar í málaflokknum, fulltrúar úr háskólum, fulltrúar úr atvinnulífinu og nemendur ræddu þá hæfni til framtíðar sem nemendur þurfa að búa yfir og hvernig megi nýta alþjóðavæðingu í þágu samfélagsins. 

Samhljómur var meðal þátttakenda um að nemendur þurfa að búa yfir þverfræðilegri hæfni til viðbótar við sértæka þekkingu til að geta sinnt störfum framtíðarinnar og lagt sitt af mörkum við að byggja upp sjálfbært samfélag. Háskólar þurfa að þjálfa sérstaklega þverfræðilega hæfni nemenda sinna. Aurora-hæfniramminn gefur kennurum tæki til að skilgreina þverfræðilega hæfni sem er kennd í námskeiðum og mæla framfarir nemenda á ýmsum sviðum, s.s. skapandi hugsun, greiningarhæfni, borgaravitund og samskiptahæfni. Þá er alþjóðaleg reynsla í námi mikilvæg til að undirbúa nemendur undir það að vinna með fólki frá öllum heimshornum sem er þegar orðinn veruleiki á flestum vinnustöðum. 

Á næstu vikum og mánuðum munu háskólarnir leggja áherslu á að gera Aurora-hæfnirammann aðgengilegan öllum kennurum ásamt efni til að þjálfa kennara í notkun hans. Jafnframt verður lögð áhersla á að styðja betur við kennara, sem hafa áhuga á samstarfi í kennslu með fræðimönnum úr öðrum Aurora-háskólum, við að finna hentuga samstarfsaðila og gera þeim kleift að hefja samstarf, t.d. með því að standa straum af kostnaði við að þróa ný sameiginleg námskeið. 

Ráðstefnan var aðgengileg öllum áhugasömum í beinu streymi en þeir sem misstu af geta horft á upptöku
 

Hluti fulltrúa HÍ í Tarragona. Frá vinstri: Nanna Teitsdóttir, verkefnisstjóri á Alþjóðasviði, Harpa Sif Arnarsdóttir, verkefnisstjóri Aurora, Halldór Jónsson, sviðstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs, Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri Alþjóðasviðs, Róbert Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs, Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, Guðmundur Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, og Guðrún Geirsdóttir, deildastjóri Kennslumiðstöðvar.