Skip to main content
30. ágúst 2019

Sterk liðsheild lykillinn að farsælu skólastarfi

Upphafsdagar skólaársins fara vel af stað en rúmlega fimm hundruð nýnemar hófu grunnnám á Menntavísindasviði í vikunni. Fjölbreytt dagskrá hefur verið í boði alla vikuna þar sem nýnemum hefur gefist kostur á að taka þátt í alls kyns smiðjum, fræðslu og liðsheildarvinnu. 

Eitt af meginmarkmiðum Nýnemadaga er að skapa öflugt námssfélag sem nemendur eru hluti af frá fyrsta skóladegi. Ása Helga Ragnarsdóttir Proppé, aðjunkt í leiklist og Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjunkt í tómstunda- og félagsmálafræði, sátu í undirbúningshóp Nýnemadaga og héldu meðal annars utan um liðsheildarvinnuna. „Markviss liðsheildarvinna felst til að mynda í að sjá hvort annað á ólíkan hátt í fjölbreyttum hlutverkum, að kynnast samnemendum sínum og skapa tengsl við nemendur og starfsfólk,“ lýsir Ása og segir jafnframt að ávinningur af góðri liðsheildarvinnu geti verið mikill.  „Þegar nemendur kynnast vel í upphafi námsins þá eiga þeir auðveldara með að setja sig í spor annarra og eru tilbúnari að takast á við námið með opnum hug. Sterk liðsheild er að mínu mati lykillinn að farsælu skólastarfi.“

 

 „Þegar nemendur kynnast vel í upphafi námsins þá eiga þeir auðveldara með að setja sig í spor annarra og eru tilbúnari að takast á við námið með opnum hug. Sterk liðsheild er að mínu mati lykillinn að farsælu skólastarfi,“ segir Ása Helga Ragnarsdóttir Proppé, aðjunkt í leiklist við Menntavísindasvið.

Á Nýnemadögum buðu einnig hátt í þrjátíu skólar og stofnanir nýnemum í heimsókn með það fyrir augum að mynda tengsl og veita innsýn í störf í uppeldis- og menntakerfinu. Nemendur gátu m.a. kynnt sér starfsemi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Ísaksskóla, Íþrótta- og ólympíusambandsins, Brúarskóla, Nóaborg, Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, Embætti landlæknis og Þroskahjálp. Vettvangsheimsóknirnar eru nýbreytni í dagskrá nýnemadaga á Menntavísindasviði og var ekki annað að sjá en að heimsóknirnar legðust vel í hópinn. 

Nýnemadögum verður formlega slitið í dag með grillveislu og tónlist fyrir starfsfólk og nemendur. 

Upphafsdagar skólaársins fara vel af stað en rúmlega fimm hundruð nýnemar hófu grunnnám á Menntavísindasviði í vikunni. Fjölbreytt dagskrá hefur verið í boði alla vikuna þar sem nýnemum hefur gefist kostur á að taka þátt í alls kyns smiðjum, fræðslu og liðsheildarvinnu.