Skip to main content
28. mars 2019

Stefnumót í sjávarútvegi í annað sinn í Háskóla Íslands

""

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fulltrúar frá fjórum fyrirtækjum í sjávarútvegi mættu á stefnumót við sjávarútveginn sem fór fram í annað sinn við Háskóla Íslands fyrr í vikunni. Stefnumótið er hluti af námskeiðinu Rekstur í sjávarútvegi sem Ásta Dís Óladóttir, lektor við Viðskiptafræðideild, hefur umsjón með. Áhugaverðar umræður sköpuðust í kjölfar erinda stjórnenda í sjávarútvegi og ljóst að nemendur höfðu undirbúið sig vel.

Það var Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sem setti stefnumótið og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flutti að því loknu ávarp. Þá tóku við erindi frá stjórnendum í sjávarútvegi.

Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Slippstöðvarinnar og stjórnarformaður Samherja, flutti erindi um samspil íslensks sjávarútvegs og útflutnings í tengslum við tækniþróun og sýndi m.a. hvernig tækniþróunin hefur gjörbylt íslenskum sjávarútvegi. Árið 1980 þurfti 10 skip með 90-100 sjómenn til þess að veiða um um 2.400 tonn en í dag veiddi eitt skip með átta manna áhöfn um 3.200 tonn. Þá tók Eiríkur dæmi um vinnslu í Neskaupstað árið 1966 með afkastagetu upp á 70 tonn og 28 starfsmenn í vinnslu. Í dag er afkastagetan á sama stað um 800 tonn og starfsmennirnir 16 að tölu. Þá greindi Eiríkur frá því að Samherji reisi nú nýtt og fullkomið 9000 fermetra vinnsluhús á Dalvík sem byggt sé á íslensku hugviti og í miklu samstarfi við fjölmörg íslensk tæknifyrirtæki. Um sé að ræða fimm milljarða króna fjárfestingu.

Heiðar Hrafn Eiríksson, aðalbókari og löggiltur endurskoðandi hjá Þorbirninum, ræddi um hvert skattasporin í íslenskum sjávarútvegi og hvort þau muni reynast fyrirtækjunum ofviða. Að mati Heiðars eru þau gjöld sem nú eru lögð á fyrirtæki í sjávarútvegi of há miðað við nágrannalönd.

Þá ræddi Hólmfríður Sveinsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Protis, um hvernig mætti skapa meiri verðmæti úr hráefni í sjávarútvegi og nefndi að mörg fyrirtæki væru mjög framarlega í nýtingu á því sem áður var hent. Það mætti hins vegar gera enn betur og tækifærin leyndust víða. Sú þróun sem átt hefur sér stað á sviði kælingar er gott dæmi um metnaðarfullt þróunarstarf þar sem þekkingarsamfélagið, tæknifyrirtæki og iðnaðurinn hafi sameinast og beitt sköpunarkrafti sínum í þágu aukinna gæða og verðmætasköpunar. 

Lilja Björg Arngrímsdóttir, lögfræðingur hjá Vinnslustöðinni, kom í erindi sínu inn á takmarkanir á samningsfrelsi við gerð ráðningarsamninga í skugga verkfalla. Lilja Björg benti á að mikill fjöldi kjarasamninga geti verið í hverju fyrirtæki, t.a.m. er Vinnslustöðin með um 20 kjarasamninga við sína starfsmenn auk sérkjarasamninga. Þá nefndi Lilja að það væri ekki allt bara svart og hvítt í þessu samhengi og vakti athygli á því að atvinnurekendur og Efling túlkuðu verkfallsboðun ekki með sama hætti.

Meistaranemarnir Margrét Albertsdóttir og Arnar Róbertsson stýrðu umræðum og spurningum nemenda. 

Gestir á stefnumóti við sjávarútveg ásamt Ástu Dís Óladóttur lektor, Jóni Atla Benediktssyni rektor og Daða Má Kristóferssyni, forseta Félagsvísindasviðs.