Skip to main content
13. apríl 2018

Stefnt að kennslu í hindí við Háskóla Íslands

Stefnt er að því að bjóða upp á kennslu í hindí við Háskóla Íslands háskólaárið 2018-2019 samkvæmt viljayfirlýsingu sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Rajiv K. Nagpal, sendiherra Indlands á Íslandi, undirrituðu í gær.

Viljayfirlýsingin kveður á um að Menningartengslaráð Indlands (Indian Council for Cultural Relations, ICCR) kosti stöðu sendikennara í hindí við Háskóla Íslands til tveggja ára í senn með möguleika á framlengingu um eitt ár. Háskólinn mun leggja til húsnæði og aðstöðu fyrir bæði sendikennarann og kennslu í tungumálinu og munu skólinn og ICCR í sameiningu velja kennarara til starfans. Kennarinn mun í samstarfi við Háskólann ákveða skipulag námsins og þau námskeið sem í boði verða. Enn fremur gerir viljayfirlýsinging ráð fyrir að kennarinn muni flytja einn opinn fyrirlestur á ári við Háskóla Íslands um málefni sem snerta Indland. 

Sem fyrr segir er stefnt að því að kennsla í hindí hefjist háskólaárið 2018-2019 og verður námið hýst í Mála- og menningardeild Hugvísindasviðs. Hindí bætist með þessu við flóru fjórtán erlendra tungumála sem þegar eru í boði við Háskóla Íslands.

Hindí tilheyrir flokki indóevrópskra tungumála eins og íslenska og er fyrst og fremst töluð í Indlandi sem er næstfjölmennasta ríki heims. Talið er að um 260 milljónir manna hafi hindí að móðurmáli sem þýðir að það er fjórða algengasta tungumál í heiminum á eftir mandarín-kínversku, spænsku og ensku.

„Undirritun viljayfirlýsingarinnar er merkur áfangi í uppbyggingu tungumálakennslu við Háskóla Íslands. Málið hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið og ég vil þakka sendiherra Indlands á Íslandi og indverskum stjórnvöldum fyrir mikinn velvilja í garð Háskóla Íslands. Kennsla og rannsóknir á sviði erlendra tungumála hafa verið í sókn við Háskólann og er þess skemmst að minnast að Veröld – hús Vigdísar var tekið í notkun á síðasta ári, en þar á m.a. aðsetur alþjóðleg tungumálamiðstöð. Það er mikið gleðiefni að hindí, sem er fjórða algengasta tungumál heims, skuli brátt bætast í fjölskrúðuga flóru erlendra tungumála við Háskóla Íslands,“ sagði sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við undirritun viljayfirlýsingarinnar í gær.

Rajiv K. Nagpal, sendiherra Indlands á Íslandi, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, handsala viljayfirlýsinguna að lokinni undirritun. MYND/Kristinn Ingvarsson
Fulltrúar Háskóla Íslands og indverskra stjórnvalda að lokinni undirritun í gær. Frá vinstri: Magnús D. Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Rajiv K. Nagpal, sendiherra Indlands, Krishna Kumar Damodaran, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, Alka Sarkar sendiráðsritari og Himanshu Toor, aðstoðarmaður sendiherra. MYND/Kristinn Ingvarsson