Skip to main content
26. janúar 2018

Starfsemi Jafnréttisskóla HSÞ eflist

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) tók á móti ellefta nemendahópnum nú í upphafi vormisseris og er hópurinn sá fjölmennasti til þessa. Nemendurnir eru 24, tuttugu konur og fjórir karlar, og koma frá fjórtán löndum; Afganistan, Bosníu og Hersegóvínu, Burkina Faso, Keníu, Líbanon, Malaví, Svartfjallalandi, Mósambík, Nígeríu, Palestínu, Serbíu, Síerra Leóne, Túnis og Úganda. Við lok annar mun hundraðasti nemandinn brautskrást frá UNU-GEST með diplóma-gráðu á meistarastigi, en byrjað var að bjóða upp á þessa námsleið árið 2009.

Fjárveitingar til Jafnréttisskólans tvöfölduðust á síðasta ári, en hann hefur að mestu verið fjármagnaður af framlögum Íslands til þróunarsamvinnu. Á síðustu árum hefur skólinn stóraukið sókn sína í innlenda og erlenda samkeppnissjóði bæði til að fjármagna komu nemenda og rannsóknir. Innlendum og alþjóðlegum stofnunum og samstarfsaðilum hefur einnig boðist að taka þátt í starfsemi skólans með styrkjum til nemenda og stuðningi við ólík verkefni á vegum skólans, s.s. námskeiðshald eða rannsóknaverkefni.

Markmið Jafnréttisskólans er að mennta fólk til jafnréttisstarfa í þróunarlöndum og samfélögum sem er verið að byggja upp eftir átök. Nemendur sem hann sækja búa yfir reynslu og þekkingu á sínu sviði, ýmist úr háskólum, opinberum stofnunum eða frjálsum félagasamtökum.  

Jafnréttisskólinn er starfræktur í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Háskóla Sameinuðu þjóðanna og fjölda annarra stofnanna innanlands sem utan. Í náminu er lögð áhersla á að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna í anda þriðja þúsaldarmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna um að unnið skuli að jafnrétti kynjanna og frumkvæðisrétti kvenna. Einnig er lögð áhersla á jafnréttissjónarmið við friðaruppbyggingu í samræmi við ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Loks er sjónum beint að samþættingu kynjasjónarmiða í umhverfismálum og við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) er liður í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Jafnréttisskólinn er rekinn í nánu samstarfi við EDDU - öndvegissetur og heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands.

Nemendur Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.