Skip to main content
30. janúar 2018

Stanford stóð svo sannarlega undir orðspori

Háskóli Íslands er í sérstöku samstarfi um sumarnám við nokkra erlenda háskóla. Tilvalið er fyrir nemendur að taka hluta af námi sínu erlendis yfir sumarmánuðina en um leið öðlast þeir dýrmæta reynslu. Stanford Summer Session´s International Honors Program er meðal þess sem í boði er. Það stendur í átta vikur og þar taka nemendur námskeið sem þeir fá metin til eininga í námi sínu við Háskóla Íslands.

Benedikt Guðmundsson, nemandi í viðskiptafræði, fór í sumarnám við Stanford síðasta sumar og sagði okkur frá dvöl sinni þar.

Ný ævintýri og ný reynsla á hverjum degi

Hvernig heyrðir þú af sumarnáminu?

„Fyrir ári síðan fór ég alvarlega að velta fyrir mér sumardvöl við erlendan háskóla. Ég hafði alltaf haft áhuga á því að stunda nám vestanhafs og skólarnir í Kaliforníu höfðu þá verið ofarlega í huga. Ég tók því þá ákvörðun að sækja um sumarnám við Stanford en nokkrir félagar mínir við Viðskiptafræðideild höfðu áður verið við nám þar og líkað vel. Ég er afskaplega ánægður að hafa tekið af skarið og sent inn umsókn vegna þess að sumarið reyndist frábært, ekki bara lærdómsríkt en einnig það allra skemmtilegasta hingað til. Enginn dagur var öðrum líkur, ný ævintýri og ný reynsla nánast á hverjum degi.“

Háskólasvæði Stanford eitt það stærsta í heimi

Hvernig var hefðbundinn skóladagur?

„Venjulegur dagur á meðan að á dvöl minni stóð var um það bil svona: Ég vakna við hóp læknisfræðinema sem ganga fram hjá glugganum mínum á leið í morgunmat. Þá fer ég af stað. Nú er komið að fyrsta tíma dagsins, tennis, sem var mitt valfag þegar kom að íþróttum. Aðrir valmöguleikar í íþróttum voru nánast ótæmandi svo það var ekki létt að velja. Eftir að hafa svitnað vel þá hjóla ég heim og fæ mér meira af morgunverðarhlaðborðinu og fer í sturtu. Það var nauðsynlegt að vera á hjóli á svæðinu enda er háskólasvæði Stanford eitt það stærsta í heimi, um helmingur af flatarmáli Garðabæjar. Allir tímarnir mínir röðuðust þannig upp að ég var í fríi fyrir hádegi og alla föstudaga. Morgnarnir voru því að mestu nýttir til lesturs. Annaðhvort lærði ég upp á herberginu mínu eða á einu af mörgum bókasöfnum á svæðinu. Eftir lærdóm á bókasafninu þá var komið að því að hitta íslenska hópinn í hádegismat. Við urðum að þéttum hóp og erum miklir vinir í dag.

Eitt af því sem kom mér á óvart í ferðinni var að ég fann varla fyrir hungurtilfinningu þessa tvo mánuði enda hlaðborð af bestu gerð í öll mál. Eftir hádegi var komið að tíma sem hét International Relations og fjallaði um utanríkisstefnur. Það sást á kennurunum hvað þeir höfðu mikinn metnað og áhuga fyrir námsefninu og lögðu sig alla fram við að koma því til skila. Skemmtilegasta námskeiðið að öðrum ólöstuðum var Public Speaking. Kennari að nafni James Waggstaffe gat hrifið með sér hvaða sal af fólki sem er og haldið honum við efnið.  Hann er einn af albestu kennurum sem ég hef lært hjá.

Eftir kennslustundir hjólaði ég heim og hvíldi mig, ýmist inni við eða úti í garði eða við sundlaugarbakkann. Eins og gefur að skilja er veðurfar með besta móti á þessu svæði. Eftir kvöldmat var annaðhvort lært fram á nótt, farið í skvass með vinum eða helgarferð skipulögð. Allar helgar voru vel nýttar. Meðal helstu ferða voru vínsmökkun í Napa Valley, helgi í náttúrugarðinum Yosemity, helgi í fallega bænum Carmel, strandarferð til Santa Cruz, tónleikar með Kendrick Lamar, dagur á brimbretti, golfhringur á háskólasvæðinu, vettvangsferð til Google, verslunarferðir, skemmtanir á háskólasvæðinu og að lokum var próflokum fagnað í Las Vegas.“

Fólkið sem hann kynntist eftirminnilegast

Aðspurður um lærdóm ferðarinnar segir Benedikt að efst í huga hans sé fólkið sem hann kynntist. „Fólkið sem sótti þetta sumarnámskeið kom frá ólíkum menningarheimum og það var mjög áhugavert að fá innsýn í þá. Hópurinn átti það þó sameiginlegt að vera árangursdrifinn og með eindæmum duglegur í námi. Ég tel mig hafa þroskast mikið í þessari ferð og lært margt nýtt, er meðal annars orðinn liðtækur tennisspilari. Ég hvet alla sem vilja upplifa ævintýri og hafa færi á því að sækja Stanford Summer Session.“

Stanford-háskóli í Kaliforníu er einn fremsti háskóli heims og býður upp á nám á fjölbreyttum fræðasviðum. Það er ótvírætt mikill fengur að samstarfi Stanford og Háskóla Íslands en samningur milli skólanna var undirritaður 2010. Sumarnámið við Stanford er í senn afar fjölbreytt og eftirsóknarvert fyrir nemendur Háskóla Íslands og gerir þeim kleift að kynnast einstöku vísindasamfélagi. Þess má geta að frumkvöðlar úr röðum Stanford-nemenda hafa átt þátt í stofnun margra heimsþekktra fyrirtækja.

Til þess að komast í sumarnámið þarf nemandi fyrst að sækja um það við Háskóla Íslands. Valið er úr umsóknum og þeir sem skara fram úr eru tilnefndir til Stanford. 

Hægt er að sækja um styrk til sumarnáms við Standford og er umsóknarfrestur til þriðjudagsins 6. febrúar nk.

https://summer.stanford.edu/

Benedikt Guðmundsson