Splunkuný tilbrigði á Háskólatónleikum  | Háskóli Íslands Skip to main content

Splunkuný tilbrigði á Háskólatónleikum 

9. október 2018
""

Helen Whitaker flautuleikari og Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari frumflytja verk eftir Mamiko D. Ragnarsdóttur, Helga Rafn Ingvarsson og tvö splunkuný tilbrigði eftir Helga Rafn við verk Marin Marais, Les Folies d‘Espagne, á öðrum háskólatónleikum vetrarins sem fara fram í Hátíðasal Háskóla Íslands miðvikudaginn 10. október kl. 12.30. Að auki eru á efnisskránni verk eftir Báru Gísladóttur, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Edward McGuire.

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.

Efnisskráin á Háskólatónleikunum

5 tilbrigði við stef: Les Folies d’Espagne (1701)
I - Marin Marais (f. 1656 - d. 1728)
Ia - Helgi Rafn Ingvarsson (f. 1985), frumflutningur
III - Marin Marais
IIIa - Helgi Rafn Ingvarsson, frumflutningur
XVII - Marin Marais

Skökk stjarna (2014) - Bára Gísladóttir (f. 1989)

Prelude 3 (1985) - Edward McGuire (f. 1948)

Það var barn í dalnum (2018) - Mamiko D. Ragnarsdóttir (f. 1984)/ FRUMFLUTNINGUR

Taktfastir svartþrestir (2018) - Helgi Rafn Ingvarsson (f. 1985)/FRUMFLUTNINGUR

Iða (2015) - Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir (f. 1990)

Verk og flytjendur

5 tilbrigði við stef - Les Folies d’Espagne: Verkið, upphaflega skrifað fyrir viola da gamba, er safn þrjátíu tilbrigða við einfalt sextán takta stef. Hér heyrast þó aðeins fyrsta tilbrigðið (upprunalega stefið), það þriðja og það sautjánda. Marais sagðist á sínum tíma vonast til að skrifa verk sín þannig að hægt væri að flytja þau á hvaða hljóðfæri sem er. Síðar voru tilbrigði þessi þó tónflutt í e-moll sem hentar betur fyrir flautu. 

Flautuleikarinn segir: „Ég hef mikinn áhuga á tilbrigðaforminu og  þess vegna bað ég Helga Rafn um að þróa með mér tvö ný tilbrigði við sama stef og Marais notaði, en nú samin sérstaklega fyrir flautuna.“

Skökk stjarna (2014) er eitt af fyrstu verkum Báru Gísladóttur. Síbreytilegir taktvísar verksins skapa nokkuð óstöðugt ástand. Það er undirstrikað af „sínkóperuðum rytmum“ sem ferðast á milli flautu og píanós, samhliða öfgafullum styrkleikamerkingum. Einnig er að finna „tæknibrellur“ (extended techniques) fyrir flautuna eins og „multiphonics“. 

Prelude 3: Í prelúdíu númer þrjú fyrir flautu skoðar McGuire séreinkenni hljóðfærisins en þar sem hann er sjálfur flautuleikari er stykkið einstaklega vel til verksins fallið. Þetta stutta verk kynnir til leiks áhugaverðar „tæknibrellur“ (extended techniques) fyrir flautuna, eins og yfirtóna og „tunguflökt“ (fluttertonguing). Prelúdían er partur af stærri prelúdíuseríu, en McGuire byrjaði að skrifa hana árið 1975 og enn safnast í sarpinn.

Verkið Það var barn í dalnum er byggt á þjóðlaginu við Ókindarkvæði:  „Það var barn í dalnum/ sem datt o’ní gat,/en þar fyrir neðan/ókindin sat.“
Barn er áhyggjulaust að leik úti í haga en veit ekki að undir fótum þess býr ófreskja. Hún verður barnsins vör, grípur í fætur þess og dregur niður. Svo heppilega vill til að maður á leið hjá og nær barninu í tæka tíð. Þegar aðalstefið heyrist í síðasta sinn er það aðeins á hálfum upprunalegum hraða sem túlkar þann létti sem barnið hlýtur að finna fyrir eftir að hafa verið bjargað. Ókindarkvæðið er að finna í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar

Tónefnið í Taktföstum svartþröstum var fyrst notað í verki fyrir ALDAorchestra sem frumflutti í Brighton í desember 2016 undir titlinum 4.1 Earths. Þá var tónlistin útsett fyrir 15 hljóðfæraleikara. Nú var tækifærið notað til endurrita verkið fyrir flautu og píanó enda, eins og tónskáldið segir, var í því fólgið tækifæri til að einblína á, sjóða niður og skýra kjarna tónlistarinnar.

Um Iðu segir tónskáldið: „Ég samdi Iðu fyrir vinkonu mína, Idun Hjellestad Jørgensen, vorið 2015 þegar hún stundaði skiptinám við LHÍ. Tónefni verksins og karakter sótti ég nær eingöngu til hennar, bæði hvað varðar spilamennsku og persónuleika. Idun glæddi verkið miklu lífi og spilaði það nákvæmlega eins og ég hafði ímyndað mér. Síðan þá hafa tveir aðrir flautuleikarar flutt verkið og það var ótrúlegt að sjá og heyra þær báðar gjörbreyta tónlistinni, hvora á sinn hátt. Það kenndi mér margt um hlutverk flytjandans í tónlist. Helen Whitaker er sú fjórða sem flytur verkið og ég er spennt að heyra hana blása sínu lífi í nóturnar.“

Helen Whitaker er margverðlaunaður flautuleikari með fjölbreyttan feril að baki. Hún nam við Trinity Laban Conservatoire of Music and Dance í Lundúnum. Hún sinnir jöfnum höndum lifandi tónlist sem vinnu í hljóðverum; leik hennar má finna á mörgum hljómplötum. Hún hefur m.a. unnið með The Leisure Society, Ray Davies, Laura Marling og 5 Billion in Diamonds (Butch Vig), ásamt því að flytja nútímatónlist með hópum eins og The Colin Currie Group og Lontano. Helen er einnig meðframkvæmdastjóri og fyrsti flautuleikari ALDAorchestra sem hún stofnaði árið 2016 ásamt Helga Rafni Ingvarssyni, tónskáldi og stjórnanda. Vefsíða Helen Whitaker

Matthildur Anna Gísladóttir lauk BA-prófi í einleik frá LHÍ 2007. Þá lá leiðin til Lundúna þar sem hún lauk meistaranámi í meðleik við Royal Academy of Music. Árið 2014 útskrifaðist hún frá Alexander Gibson Opera School í Royal Conservatoire of Scotland með meistarapróf í óperuþjálfun; hún hlaut James H. Geddes Repetiteur-verðlaunin. Þá hefur hún komið að uppsetningum, m.a. hjá Íslensku óperunni, Óperudögum í Kópavogi, British Youth Opera, Clonter Opera, Edinburgh Grand Opera, Lyric Opera Studio í Weimar, Scottish Opera, Royal Academy Opera, og Co-Opera Co í Lundúnum. Matthildur er aðjúnkt við LHÍ og meðleikari við Menntaskólann í tónlist.
 

Helen Whitaker