Skip to main content
24. febrúar 2021

Spjallaðu við nemendur og kennara á Stafræna Háskóladeginum

Spjallaðu við nemendur og kennara á Stafræna Háskóladeginum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hinum árlega Háskóladegi verður fagnað laugardaginn 27. febrúar kl. 12-16, að þessu sinni alfarið á netinu vegna samkomutakmarkana. Á deginum gefst gestum m.a. kostur á spjalla við nemendur og kennara í hverri einustu námsleið í grunnnámi í Háskóla Íslands á opnum fjarfundum um hvaðeina sem snertir námsleiðina. Háskólinn verður jafnframt með beina útsendingu frá Hátíðasal þar sem vísindamenn skólans ræða rannsóknir og samfélagsmál og sýna á sér aðrar hliðar en oftast sjást í fjölmiðlum. 

Háskólar landsins hafa um árabil staðið saman að Háskóladeginum en í ljósi þeirra samkomutakmarkana sem gilda í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins var ákveðið að hafa daginn í ár stafrænan. Framhaldsnám innan Háskóla Íslands verður kynnt sérstaklega á fjarfundum í marsmánuði.  

Á Stafræna Háskóladeginum verður hver og ein námsleið við Háskóla Íslands með sinn fjarfund og hægt verður að fara inn á fundina hvenær sem á milli kl. 12 og 16. Þetta gefur gestum tækifæri til að fara inn á marga fjarfundi og leita svara við spurningum sínum og spjalla um þær námsleiðir sem vekja áhuga. Á vef Háskóladagsins er nú yfirlit yfir allt háskólanám á Íslandi. Þar er hægt að skoða og leita að námsleiðum í öflugri leitarvél. Með einum smelli er notandinn færður yfir á námsleiðasíður á vefsíðum háskólanna sjálfra og þaðan á fjarfund þeirrar námsleiðar eða námsleiða sem höfða til hans.

Þarna gefst því frábært tækifæri til þess að kynna sér fjölbreytt námsframboð Háskóla Íslands í grunnnámi og eiga gott samtal við þau sem best þekkja hverja námsleið. 

Á Stafræna Háskóladeginum verður einnig hægt ræða við fulltrúa frá Náms- og starfsráðgjöf, Alþjóðasviði, Nemendaskrá, Stúdentaráði og Félagsstofnun stúdenta sem er sér um Stúdentagarða, leikskóla stúdenta, matsölur og fleira.  

Vísindi á mannamáli í beinu streymi frá Hátíðasal 

Á Stafræna Háskóladeginum situr vísinda- og fræðafólk Háskóla Íslands enn fremur fyrir svörum í beinu streymi úr Hátíðasal skólans. Um er að ræða spjallþátt undir yfirskriftinni „Vísindi á mannamáli“ þar sem ætlunin er að ræða efni í deiglunni, áskoranir samtímans og rannsóknir í víðum skilningi auk þess sem ætlunin er að varpa ljósi á hina hliðina á vísindamönnunum sem ekki blasir alltaf við. 

Útsendingin verður milli kl. 13 og 15.30.

Viðmælendur verða frá öllum fimm fræðasviðum auk þess sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskólans, og Isabl Alejandra Dias, forseti Stúdentaráðs, sitja fyrir svörum. Viðmælendur eru úr hópi þekktustu vísindamanna landsins en auk Jóns Atla og Isabel eru viðmælendurnir Silja Bára Ómarsdóttir, Sigrún Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Eyvindur G. Gunnarsson, Helgi Gunnlaugsson, Urður Njarðvík, Thor Aspelund, Andri Steinþór Björnsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ingileif Jónsdóttir, Ármann Jakobsson, Rósa Signý Gísladóttir, Guðmundur Hálfdanarson, Guðrún Nordal, Hanna Ragnarsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, Magnús Tumi Guðmundsson, Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, Gunnar Þór Hallgrímsson og Halldór Pálmar Halldórsson. 

Spyrlar verða Jón Örn Guðbjartsson, sviðsstjóri markaðs- og samskiptasviðs Háskólans, og Björn Gíslason, kynningar- og vefritstjóri.   

Inni á milli viðtala verða svo sýnd spennandi innslög sem varpa ljósi á mikilvægi upplýsingatækninnar í vísindastarfi á okkar tímum.    
 
 

Logo Háskóaldagsins