Sólmyrkvahátíð í Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content

Sólmyrkvahátíð í Háskóla Íslands

19. mars 2015
""

Háskóli Íslands og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness blása til hátíðar föstudaginn 20. mars fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands í tilefni sólmyrkvans sem verður að morgni þess dags. Hátíðin er liður í dagskrá háskólans á Alþjóðlegu ári ljóssins. Auk þess verður boðið upp á áhugaverða fyrirlestra um evrópska geimfarið Rosetta og hinn ósýnilega alheim í Hátíðasal háskólans síðar sama dag.

Sólmyrkvahátíðin hefst klukkan 8.30, skömmu áður en sólmyrkvinn skellur á, fyrir framan Aðalbyggingu en þar munu fulltrúar Háskóla Íslands og Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness verða með sólarsjónauka sem beint verður að sólinni svo hægt verði að fylgjast með myrkvanum með sem bestum hætti. Enn fremur verða þeir með sólmyrkvagleraugu fyrir gesti og gangandi.  Sólmyrkvanum lýkur um kl. 10.30 og allir eru hjartanlega velkomnir á háskólasvæðið á þessum tíma.

Hátíðin heldur svo áfram kl. 17 með tveimur fyrirlestrum í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands.  Haley Gomez, stjarneðlisfræðingur við Cardiff-háskóla, fjallar um hinn hinn ósýnilega alheim og Mark McCaughrean, yfirmaður vísindarannsókna og geimkönnunar hjá Geimvísindastofnun Evrópu (ESA), flytur erindi um evrópska geimfarið Rosetta sem rannsakar um þessar mundir halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko.
Fyrirlestrarnir, sem jafnframt eru liður í dagskrá Háskóla Íslands á Alþjóðlegu ári ljóssins, eru öllum opnir meðan húsrúm leyfir.

Nánari upplýsingar um sólmyrkvahátíðina veitir Sævar Helgi Bragason, verkefnisstjóri vísindamiðlunar við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, í síma 896-1984.

Nánar um Alþjóðlegt ár ljóssins

Sólmyrkvahátíð í HÍ
Sólmyrkvahátíð í HÍ