Sólir og ég … og við öll í vorinu | Háskóli Íslands Skip to main content

Sólir og ég … og við öll í vorinu

13. mars 2018

Auður Gunnarsdóttir, sópran, og Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanó, frumflytja ný sönglög eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur við ljóð eftir Andra Snæ Magnason á Háskólatónleikum miðvikudaginn 14. mars.

Einnig eru á dagskránni verk eftir Jón Ásgeirsson við ljóð eftir Halldór Laxness, Jóhann Sigurjónsson og Matthías Johannessen. Jón verður níræður á árinu.

Tónleikarnir hefjast kl. 12:30 og þeir verða í Hátíðasalnum í aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.

Flytjendur og tónskáld

Auður Gunnarsdóttir lauk áttunda stigi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1991. Árið 1992 hélt hún til frekara náms við tónlistarháskólann í Stuttgart. Þaðan lauk hún MA-prófi frá óperuskólanum og ljóða- og einsöngvaradeild árið 1997. Kennarar hennar þar voru Luisa Bosabalian og Carl Davis. Á námsárunum sótti Auður námskeið hjá Renötu Scotto, Brigitte Fassbaender og Hermann Prey. Haustið 1999 hóf hún störf við óperuna í Würzburg. Þar söng hún ýmis hlutverk, t.d. Rosalindu í Leðurblökunni, Micaëlu í Carmen, Donnu Elviru í Don Giovanni, Blance í Samtal karmellítanna, o.m.fl. auk þess að syngja iðulega í ýmsum óperuhúsunum.

Í Íslensku óperunni hefur Auður sungið hlutverk Mimiar í La Bohéme, Pamínu og annarrar dömu í Töfraflautunni, Santuzzu í Cavaleria Rusticana og Elle í La voix humaine en fyrir það hlutverk var hún tilnefnd til Grímuverðlaunanna 2017; hún er tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem besta söngkona ársins 2017. Auður hefur oft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sem einsöngvari með kórum og sönghópum. Má þar m.a. nefna sönghópinn The King´s singers. Auður hefur átt lengi gott samstarf við karlakórinn Fóstbræður og þau vinna nú að hljómdiski.

Auður hefur haldið fjölmarga ljóðatónleika hér heima og erlendis og hún hefur hlotið marga styrki. Diskar sem Auður hefur sungið inn á eru Íslenskir söngvar, heildarútgáfa af verkum Sigvalda Kaldalóns og Jóns Þórarinssonar, Little Things Mean a Lot og Ljóð, Lieder, Songs en sá síðastnefndi var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2012.

„Dagskráin varð til sumarið 2017 í Listasafni Reykjavíkur þar sem við Þórunn Gréta tókum þátt í verki Ragnars Kjartanssonar, Guð, hvað mér líður illa. Aðspurð kvaðst hún eiga sönglög í smíðum við texta Andra Snæs Magnasonar og komum við okkur saman um að ég myndi frumflytja þau við fyrsta tækifæri. Þegar við Eva Þyri völdum ljóð á þessa tónleika fannst okkur fara vel á að flytja fjögur ný sönglög eftir Þórunni Grétu og fimm lög eftir Jón Ásgeirsson. Við völdum þekkt lög Jóns í bland við minna þekkt og byrjum líklega á hans allra þekktasta lagi, Maístjörnunni, enda má segja að í hugum margra sé það Jón Ásgeirsson. Það er þó ekki aldeilis svo enda er Jón eitt okkar allra virkasta tónskáld og hefur m.a. samið ógrynni af sönglögum sem mörg hver heyrast allt of sjaldan,“ segir Auður.

Eva Þyri Hilmarsdóttir lauk prófum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum og The Royal Academy of Music í London, en þaðan útskrifaðist hún með hæstu einkunn, hlaut heiðursnafnbótina DipRAM og The Christian Carpender Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika. Helstu kennarar hennar voru Þorsteinn Gauti Sigurðsson, Halldór Haraldsson, John Damgård og Michael Dussek.

Eva Þyri hefur haldið fjölda einleikstónleika og komið fram sem einleikari og tekið þátt í frumflutningi íslenskra og erlendra verka á tónlistarhátíðum hér á landi og erlendis. Undanfarin ár hefur hún einnig lagt mikla áherslu á flutning ljóðasöngs og kammertónlistar og hefur komið fram með mörgum af helstu tónlistarmönnum landsins.

Þórunn Gréta Sigurðardóttir hóf tónlistarnám á Héraði. Hún stundaði píanó- og tónsmíðanám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk prófi í tónsmíðum 2008, BA-prófi í tónsmíðum frá LHÍ 2011 og MA-prófi frá Hochschule für Musik und Theater í Hamborg 2014. Hún hefur sótt fjölda námskeiða í píanóleik, tónsmíðum og spuna. Hún hefur samið kammertónlist fyrir hefðbundin hljóðfæri en líka tónlist við innsetningar, vídeóverk og hreyfimyndir í samstarfi við íslenska hönnuði og ljóðskáld.

„Ljóðasmygl og skáldarán, fyrsta ljóðabók Andra Snæs Magnasonar, hafði mikil áhrif á mig þegar ég heyrði hann lesa upp úr henni á menntaskólaárum mínum. Ég keypti hana á staðnum og hún fylgdi mér nánast hvert fótmál í nokkur ár. Tvíræðni, sjálfsháð, orðaleikir, einlægni og landslagsmyndir mynda einhverja furðulega heild, svolítið bernska án allrar einfeldni. Ég lærði þó nokkur ljóðanna utan að og hafði mótað nokkrar hendingar í huganum þegar ég loksins hafðist handa við að semja við þau lög á lokaári í tónsmíðanámi við Tónlistarskólann í Reykjavík. Sex ljóð urðu að sönglagabálki og fjögur þeirra fá að hljóma hér í flutningi Auðar Gunnarsdóttur og Evu Þyrí Hilmarsdóttur,“ segir Þórunn.

Jón Ásgeirsson, sem verður níræður seinna á árinu, stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík en framhaldsnám við Konunglega skoska tónlistarskólann í Glasgow og Guildhall-skólann í London. Jón var lengstum kennari við KHÍ en hann var skipaður prófessor í tónlist árið 1996.

Jón Ásgeirsson hefur samið mikinn fjölda verka af ýmsum toga, sönglög, óperur, verk fyrir strengjasveit og konsert fyrir selló og horn. Hann hefur einnig verið mikilvirkur útsetjari fyrir hljóðfærahópa og kóra. Þar skipar hinn íslenski þjóðlagaarfur sérstakan sess.

Auður Gunnarsdóttir og Eva Þyri Hilmarsdóttir

Netspjall