Skip to main content
5. febrúar 2019

Sólarsöngvar á Háskólatónleikum

""

Háskólatónleikar hefjast að nýju þann 6. febrúar nk. og óhætt er að segja að fyrstu tónleikar ársins verði spennandi þar sem íslenskri tónlist verður skipað í öndvegi. Stirni ensemble flytur þá verk eftir Arngerði Maríu Árnadóttur, verk fyrir flautu og gítar eftir Martial Nardeau og verk eftir Sigurð Árna Jónsson. Öll verkin verða frumflutt. Á dagskránni er einnig verk fyrir sópran og bassaklarínettu eftir Ingibjörgu Azima. 

Stirni Ensemble er skipað þeim Björk Níelsdóttur sópransöngkonu, Hafdísi Vigfúsdóttur flautuleikara, Grími Helgasyni klarínettuleikara og Svani Vilbergssyni gítarleikara. Öll hafa þau verið virk í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár. Björk starfar einnig að fjölbreyttum verkefnum í Hollandi þar sem hún er búsett. 

Samsetning hópsins er óvenjuleg. Hann leitar eftir góðu samstarfi við tónskáld í því skyni að fá ný verk fyrir hópinn. Íslensk samtímatónlist er þannig áberandi á efnisskránni líkt og efnisskrá dagsins endurspeglar. Ekkert er þeim þó óviðkomandi, hvort sem það er argentískur tangó eða japönsk þjóðlög.

Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 og eru þeir í Kapellunni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Aðgangur er ókeypis eins og alltaf og allir eru velkomnir.

Arngerður María Árnadóttir er tónlistarstjóri og organisti við Laugarneskirkju. Hún er félagi í tveimur tónlistarhópum, Umbra Ensemble og Voces Thules, þar sem hún leikur á keltneska hörpu og orgel ásamt því að syngja. Verkið Sól ek sá varð til á haustmánuðum 2018 og er verkefni hennar í tónsmíðum í LHÍ. „Ég heyrði fyrst brot af Sólarljóðum, hinu forna helgikvæði, fyrir mörgum árum,“ segir Arngerður María um verkið. „Erindin sjö sem hefjast öll á orðunum Sól ek sá fundust mér mjög áhrifamikil og einhvern veginn viku þau aldrei alveg úr huga mér. Þegar ég fékk tækifæri til þess að skrifa verk fyrir Stirni þá fannst mér ég loksins hafa fundið hugmyndinni vettvang.“

Martial Nardeau er flautuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur fengist við tónsmíðar um árabil og lauk nýverið við verk í fjórum sjálfstæðum þáttum, innblásið af íslensku árstíðunum.

Hafdís Vigfúsdóttir og Svanur Vilbergsson frumfluttu Vetur, einn þátt úr verki Martials, á Myrkum músíkdögum í fyrra. Hér verður frumfluttur næsti kafli, Vor. 

Ingibjörg Azima sækir efnivið í tónsmíðar sínar einkum í íslenskan skáldskap. Áberandi ljóðrænn og þjóðlegur blær einkennir því verk hennar í bland við nútímalegar hljómsetningar. Ingibjörg hefur samið nokkur gullfalleg lög fyrir Stirni, bæði við texta Halldórs Laxness og Snorra Hjartarsonar. Þá hefur hún hefur meðal annars sent frá sér hljómdiskinn Vorljóð á ýli, lög við níu ljóð ömmu sinnar, Jakobínu Sigurðardóttur. 

Síðasta verkið á dagskránni er nýtt og verður frumflutt í Kapellunni. Það er eftir Sigurð Árna Jónsson og er samið sérstaklega fyrir hópinn. Sigurður Árni lauk nýverið meistaraprófi í tónsmíðum frá tónlistarháskólanum í Gautaborg og stundar um þessar mundir meistaranám í hljómsveitarstjórnun í Piteå í Svíþjóð.

Hljómsveitin Stirni ensemble