Snyder fjallar um Donald Trump og alræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Snyder fjallar um Donald Trump og alræði

4. september 2017

Timothy Snyder, prófessor við Yale-háskóla og einn þekktasti sagnfræðingur okkar tíma, flytur Jóns Sigurðssonar fyrirlestur 8. september næstkomandi á vegum Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands. Á meðal þekktustu verka Snyder eru bækurnar Bloodlands: Europe Between Hitler and Stalin og Black Earth: The Holocaust as History and Warning. Fyrirlesturinn mun byggja á metsólubók hans, On Tyranny, Twenty lessons from the twentieth century, sem kom út snemma á þessu ári.

Bókin er skrifuð í tilefni af kjöri Trumps í embætti Bandaríkjaforseta og vegna fordæmalausra breytinga á sjálfsmynd Bandaríkjamanna þar sem alið er á ótta og reiði og kynt undir glundroða og angist. Snyder telur að í ljósi sögunnar sé full ástæða til að óttast þá stefnu sem stjórnmálin hafa tekið í Bandaríkjunum og vísar þar til þess hvernig fasismi og nasismi útrýmdu lýðræði í fjöldamörgum Evrópulöndum á millistríðsárunum. Snyder segir að þótt sagan endurtaki sig ekki, þá feli hún í sér lærdóma og viðvaranir sem fólk þurfi að skoða og taka alvarlega. Í bókinni segir Snyder meðal annars: „The Founding Fathers tried to protect us from the threat they knew, the tyranny that overcame ancient democracy. Today, our political order faces new threats, not unlike the totalitarianism of the twentieth century. We are no wiser than the Europeans who saw democracy yield to fascism, Nazism, or communism. Our one advantage is that we might learn from their experience.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun bjóða Timothy velkominn. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 132 í Öskju og hefst kl. 14:00. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Timothy verður hér á landi á vegum Bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík.

Sjá einnig timothysnyder.org.

Netspjall