Skip to main content
21. september 2020

Skylt að nota hlífðargrímur í Háskóla Íslands

Skylt að nota hlífðargrímur í Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (21. september):

„Kæra nemendur og samstarfsfólk.

Nú er ný vika hafin og brýn nauðsyn að laga okkur að nýjum reglum til að tryggja sóttvarnir og áframhaldandi háskólastarf. Samkvæmt auglýsingu frá stjórnvöldum, sem birt var í gærkvöldi um takmörkun á skólastarfi, er nemendum, kennurum og starfsfólki nú skylt að nota hlífðargrímur í skólabyggingum og í öllu skólastarfi. Undir þetta falla bæði kennsla og fundir. 

Ég hvet fólk til að halda fundi rafrænt eins og nokkur er kostur og að halda góðri fjarlægð í öllu námi og starfi enda gilda nándarreglur áfram þótt grímur séu notaðar. Einu frávikin frá þessu eru í verklegri kennslu. 

Grímum verður dreift í allar byggingar á Háskólasvæðinu í dag og verða þær aðgengilegar fyrir alla að kostnaðarlausu. Hér er farið yfir rétta notkun hlífðargrímanna. 

Skimun verður áfram í boði Íslenskrar erfðagreiningar. Þið sem ekki hafið nýtt þetta úrræði eruð hvött til að bóka tíma. Boðslykill okkar er HI_COVID

Ég hvet þau ykkar sem kjósið að vinna heima næstu dagana til að gera það í samráði við ykkar næsta yfirmann. Einnig vil ég hvetja kennara eftir því sem kostur er til að leggja þunga á fjarkennslu.  

Munum að einstaklingsbundnar sóttvarnir skipta sköpum til að vernda okkur sjálf og aðra. Verum undanbragðalaust heima ef minnstu einkenna er vart. Fylgjum reglum almannavarna og hlöðum niður smitrakningarappi landlæknis. 

Stöndum saman í þessari baráttu eins og hingað til. 

Gangi ykkur öllum vel kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Fólk með grímu