Skoðaði reynslu skólastjórnenda af breytingum í íslenskum framhaldsskólum | Háskóli Íslands Skip to main content

Skoðaði reynslu skólastjórnenda af breytingum í íslenskum framhaldsskólum

7. maí 2018

Guðrún Ragnarsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína í menntavísindum, Upplifun og reynsla skólastjórnenda af breytingum í íslenskum framhaldsskólum samtímans. Gagnvirk áhrif einstaklinga, hópa og félagskerfa, við Kennaradeild Háskóla Íslands. Andmælendur voru Elisabet Nihlfors, prófessor við Uppsalaháskóla, og dr. Monica Johansson, dósent við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð.

Leiðbeinandi var Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og meðleiðbeinandi Jón Torfi Jónasson, prófessor emeritus við sömu stofnun. Auk þeirra sat í doktorsnefnd Lisbeth Lundahl, prófessor við Háskólann í Umeå í Svíþjóð.

Baldur Sigurðsson, dósent og forseti Kennaradeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram þann 24. apríl í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Myndir frá athöfninni

Um doktorsverkefnið

Ritgerðin fjallar um sýn skólastjórnenda í níu íslenskum framhaldsskólum á samspili einstaklinga, hópa og félagskerfa sem draga úr breytingum eða hvetja til þeirra. Ritgerðin fæst einnig við upplifun skólastjórnenda á hlutverki sínu, völdum og getu við að innleiða breytingar og þeim áskorunum sem fylgja því ferli. Tekin voru viðtöl við 21 stjórnanda í níu framhaldsskólum víðs vegar um landið. Viðtölin voru rædd í ljósi kenninga um stofnanir (e. institutions) annars vegar og skipulagsheildir (e. organizations) hins vegar. Enn fremur út frá kenningum um leiðtoga stofnana og skipulagsheilda, kenningum um ólík viðbrögð skóla við ytri kröfum um breytingar og kenningum um hvort breytingar nái í gegn eða ekki. Niðurstöðurnar sýna flókið mynstur gagnkvæmra áhrifa á breytingar, milli einstaklinga, hópa og félagskerfa, úr bæði ytra og innra umhverfi skólanna. Viðmælendur nefndu fjölmörg dæmi sem sýndu að flest áhrifaöflin styrkja ríkjandi hefðir innan skólakerfisins, gildi og viðmið. Þessi stýring, sem rökstutt er að megi kalla stofnanastýringu, er sterkt afl sem á stóran þátt í að hægja á breytingum eða jafnvel hindra þær. Á hinn bóginn lýstu skólastjórnendur því einnig hvernig hópar, innan og utan skólanna, hvöttu til breytinga og komu af stað vissu losi í skólunum (sem líkja má við afstofnanavæðingu) sem ýtti undir að nýjar hugmyndir flæddu á milli framhaldsskólanna. Mesta áskorun viðmælenda við innleiðingu menntabreytinga tengdist inntaki náms. Viðmælendur sögðust hafa takmörkuð völd til að hafa áhrif þar á. Þeir lýstu því aftur á móti hvernig þeir hefðu umtalsverða möguleika til forystu þegar kemur að kennsluháttum og námsmati. Þátttökuskólarnir virkjuðu með ólíkum hætti þá stefnu sem boðuð var með lögunum 2008 og aðalnámskrá 2011 sem bendir til að margar sjálfstætt starfandi einingar séu ráðandi innan skólanna. Skólastjórnendur fjölluðu jafnframt um það hvernig þeir brugðust við margvíslegri hvatningu til breytinga með mismunandi hætti. Lýsingar voru ýmist einkennandi fyrir leiðtoga stofnana eða skipulagsheilda, eftir viðfangsefnum hverju sinni, en viðbrögðin réðust einnig af ráðandi menningu innan skólanna og utanaðkomandi þrýstingi.  

Um doktorsefnið

Guðrún Ragnarsdóttir er fædd árið 1971 í Neskaupstað. Guðrún er menntaður lífeindafræðingur með kennsluréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi. Einnig er hún með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu og meistaragráðu í lýðheilsufræðum. Guðrún hefur starfað sem kennari á þremur skólastigum en lengst af starfaði hún sem framhaldsskólakennari og millistjórnandi í Borgarholtsskóla. Guðrún hefur tekið að sér fjölbreytt verkefni á sviði menntunar fyrir Evrópuráðið og hefur stundað rannsóknir á líðan og starfsumhverfi kennara, stjórnenda og náms- og starfsráðgjafa í íslenskum framhaldsskólum. Nú starfar Guðrún sem aðjunkt og verkefnastjóri starfsþróunar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún er gift Jóni Bender framkvæmdastjóra og saman eiga þau þrjú börn.

Athöfnin fór fram þann 24. apríl í Hátíðasal Háskóla Íslands. Frá vinstri: Baldur Sigurðsson, dósent og forseti Kennaradeildar, Elisabet Nihlfors, prófessor við Uppsalaháskóla, doktorsefnið Guðrún Ragnarsdóttir, Monica Johansson, dósent við Gautaborgarháskóla, og Jóhanna Einarsdóttir, prófessor og forseti Menntavísindasviðs.

Netspjall