Skipulagsmál háskólasvæðisins í brennidepli á háskólaþingi | Háskóli Íslands Skip to main content

Skipulagsmál háskólasvæðisins í brennidepli á háskólaþingi

7. nóvember 2018
""

Háskólaþing Háskóla Íslands verður haldið í 22. sinn í dag, 7. nóvember kl. 13-16, í Hátíðasal Aðalbyggingar.

Á Háskólaþingi eru þrjú mál á dagskrá að þessu sinni. Fyrst reifar rektor mál sem eru efst á baugi í Háskóla Íslands. Næst gera Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Andrea Gerður Dofradóttir verkefnisstjóri helstu niðurstöður könnunar á viðhorfum akademískra starfsmanna til matskerfis opinberu háskólanna. 

Loks fer fram heildstæð kynning og umræða um skipulagsmál háskólasvæðisins. Flutt verða sjö stutt og hnitmiðuð innlegg og að því búnu fara fram umræður og verða framsögumenn í pallborði. Fyrst fer Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor og formaður skipulagsnefndar háskólaráðs, yfir stöðu mála varðandi yfirstandandandi endurskoðun heildarskipulags háskólasvæðisins. Þá rekur Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands, sögu og þróun skipulags háskólasvæðisins. Að því búnu greinir Sigríður Sigurðardóttir, arkitekt og sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, frá því sem er á döfinni í byggingarmálum Háskóla Íslands. Næst lýsir Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs, sýn stúdenta. Þá greinir Hilmar Bragi Janusson, forstjóri Genís, fv. forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og formaður stjórnar Vísindagarða, frá málefnum Vísindagarða Háskóla Íslands. Næst greinir Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkur, frá tillögum starfshóps um bættar samgöngur á Vatnsmýrarsvæðinu. Síðastur á mælendaskrá er Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri og gerir hann grein fyrir stöðu Hringbrautarverkefnisins. 

Háskólaþing er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Þingið fjallar um og tekur þátt í að móta sameiginlega stefnu Háskóla Íslands og á því eiga sæti rektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar og kjörnir fulltrúar fræðasviða, fulltrúar helstu stofnana háskólans og samstarfsstofnana hans, kennarafélaga og stúdenta auk fulltrúa starfsmanna stjórnsýslu og fulltrúa úr háskólaráði. Yfir 100 manns sækja háskólaþing að þessu sinni.
 

Frá Háskólaþingi.

Netspjall