Skip to main content
16. desember 2015

Skiptinám á næsta skólaári

Nú styttist í umsóknarfresti um skiptinám skólaárið 2016-2017. Frestur til að sækja um nám utan Evrópu er til 15. janúar 2016 og 1. mars 2016 innan Evrópu. Skiptinám er einstakt tækifæri fyrir nemendur til að stunda hluta af námi sínu erlendis við einn af yfir fjögur hundruð samstarfsskólum háskólans um allan heim. Nemendur geta að auki fengið skiptinámið metið inn í námsferil sinn við Háskóla Íslands svo dvölin hafi ekki áhrif á lengd námsins.

Skiptinám getur einnig gert nemendum kleift að stunda nám við fremstu háskóla heims þar sem annars gæti verið afar erfitt að fá inngöngu og veitir tækifæri á fjölbreyttara námsframboði, ekki síst á framhaldsstigi. Auk þess getur skiptinám opnað dyr fyrir nemendur sem hafa áhuga á að fara síðar í áframhaldandi nám við sama skóla eða í sama landi. Þá sýna niðurstöður rannsókna fram á jákvæð áhrif skiptináms á atvinnumöguleika ungs fólks.

Kostir þess að fara í skiptinám:

  • Fjölbreyttara námsframboð
  • Einfaldara og ódýrara en að fara í nám á eigin vegum
  • Skiptinámið er metið inn í námsferil við HÍ
  • Tækifæri til að kynnast nýju landi og nýrri menningu
  • Öflugra tengslanet
  • Möguleikar á ferða- og dvalarstyrkjum
  • Skólagjöld eru felld niður við háskóla í Bandaríkjunum eða Kanada
  • Dýrmæt reynsla sem nýtist í frekara námi og á vinnumarkaði
  • Aukin tungumálakunnátta

Í Nordplus- og Erasmus-skiptum eru ferða- og dvalarstyrkir í boði. Styrkirnir skerða ekki námslán frá LÍN. Utan Evrópu eru ýmsir möguleikar í boði, en víðast eru niðurfelld eða mikið lækkuð skólagjöld.

Kynningarmyndband

Frekari upplýsingar um skiptinám

""