Skip to main content
4. júní 2021

Skemmtilegar umræður og góð þátttaka

Skemmtilegar umræður og góð þátttaka - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hátt í þúsund manns sóttu líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnuna sem fram fór dagana 2. og 3. júní síðastliðinn. Ráðstefnan, sem haldin var í 20. sinn, hefur fest sig í sessi sem uppskeruhátíð líf- og heilbrigðisvísinda á Íslandi, þar sem fjallað er um nýjustu rannsóknir á þessum sviðum.  

Dagskrá ráðstefnudaganna tveggja var þétt skipuð og alls voru í boði 250 erindi í málstofum, formi örfyrirlestra, gestafyrirlestra og opinna fyrirlestra fyrir almenning. Þátttakendur voru úr röðum vísindafólks og nemenda Háskóla Íslands en jafnframt voru fjölmargir þátttakendur frá samstarfsstofnunum, fyrirtækjum og öðrum háskólum. 

Ráðstefnan fór að öllu leyti fram á netinu og enn er hægt að nálgast öll ágrip sem voru til umfjöllunar og upptökur af örfyrirlestrum, en þeir voru um sjötíu talsins. Þegar nær dró ráðstefnunni var ljóst að hægt yrði að bjóða gestum á staðinn. Þó nokkuð af þátttakendum nýttu sér það og mættu á Hilton Nordica Hótel, hlustuðu á fyrirlestra og blönduðu geði. Það varð því úr að ráðstefnan var hvort tveggja stafræn og á staðnum og tókst það sérlega vel. Þó nokkrar umræður sköpuðust bæði í sal og á stafrænu spjallborði og vaskir fundarstjórar sáu til þess að öllum spurningum voru svarað. 

„Það var gaman að sitja málstofurnar á staðnum, þrátt fyrir að þátttakendur í sal væru færri en áður þá sköpuðust skemmtilegar umræður og sérstök stemning á meðal gesta“ segir Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs en ráðstefnan var skipulögð af skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs og sérstakri ráðstefnunefnd sem skipuð er af vísindafólki úr öllum deildum sviðsins. 

Við ráðstefnuslitin hlutu fjórir efnilegir vísindamenn verðlaun fyrir rannsóknaverkefni sín. Hér má lesa nánar um verðlaunahafana

Fjölmiðlar hafa flutt fréttir af rannsóknum sem kynntar voru á ráðstefnunni síðustu daga. Hægt er að nálgast fréttirnar á Facebook-síðu 20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnunnar. Þar má einnig skoða myndir sem Kristinn Invarsson, ljósmyndari, tók á staðnum.