Sjóvá og Pink Iceland hlutu jafnréttisverðlaun | Háskóli Íslands Skip to main content
18. nóvember 2020

Sjóvá og Pink Iceland hlutu jafnréttisverðlaun

Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2020 voru í dag veitt tryggingarfélaginu Sjóvá á morgunfundi um jafnréttismál, en mannréttindi eru mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins. Við sama tilefni voru sérstök sprotaverðlaun veitt í fyrsta sinn og komu þau í hlut ferða- og viðburðafyrirtækisins Pink Iceland.

Morgunverðarfundurinn fór fram á netinu vegna samkomutakmarkana en þetta var í áttunda sinn sem Hvatningarverðlaun jafnréttismála voru afhent. Verðlaunum er ætlað að vekja athygli á fyrirtækjum sem skara fram úr í jafnréttismálum en önnur fyrirtæki eru hvött til þess að feta sömu braut. Að verðlaununum standa Samtök atvinnulífsins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, Háskóli Íslands og UN Women á Íslandi.

Sem fyrr segir hlýtur tryggingafélagið Sjóvá verðlaunin að þessu sinni en á hverju ári eru skilgreindar markvissar aðgerðir í jafnréttismálum innan fyrirtækisins. 

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir viðurkenningunni segir meðal annars: „Sjóvá var fyrsta fyrirtækið til að fá 10 á kynjakvarða Kauphallarinnar GEMMAQ og hefur náð góðum árangri í að jafna kynjahlutföll með skýrri stefnu og skipulögðum ákvörðunum um ráðningar. Stjórnendur eru sannfærðir um að áhersla á jafnrétti skili rekstrarlegum ávinningi og horfa þau á jafnréttismál sem hluta af aðgerðum til að auka arðsemi. Sjóvá sýnir mikið frumkvæði með því að bjóða upp á framlengingu fæðingarorlofs sem nemur sex vikum á 80% launum. Jafnréttisýn og árangur Sjóvár er hvetjandi fyrir önnur fyrirtæki og hefur Sjóvá tekið mjög virkan þátt í umræðum um jafnréttismál.“ 

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, og Ágústa Bjarnadóttir, forstöðumaður mannauðs hjá fyrirtækinu, veittu verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur atvinnu- og nýsköpunarráðherra.

Sérstök sprotaverðlaun veitt í ár

Auk þessa urðu þau nýmæli í ár að sérstök sprotaverðlaun voru veitt fyrirtækinu Pink Iceland, sem jafnframt er eina ferðaþjónustu- og viðburðarfyrirtæki landsins sem einblínir á þarfir og menningu hinsegin fólks. Það var Eva María Þórarinsdóttir Lange, eigandi og framkvæmdastjóri Pink Iceland, sem tók við verðlaunum úr hendi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur atvinnu- og nýsköpunarráðherra ásamt meðeigendum sínum, þeim Birnu Hrönn Björnsdóttur og Hannesi Páli Pálssyni.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: „Skilningur á jafnréttishugtakinu er víður. Fyrirtækið einblínir ekki aðeins á tvö kyn heldur er áhersla á það mannlega, að við eigum öll að búa við jafnrétti, virðingu og frelsi. Mannréttindastefna fyrirtækisins er skýr bæði innan fyrirtækisins og út á við. Áhersla er lögð á að stefna og vinnubrögð birgja samræmist stefnu fyrirtækisins. Þá velur fyrirtækið samstarfsaðila sem vinna eftir gæða-, umhverfis- og siðferðilegum kröfum. Fyrirtækið býður samstarfsaðilum sínum upp á fræðslu um jafnréttismál og er þannig hvetjandi afl í að skapa aukið jafnrétti á vinnumarkaðnum og í samfélaginu.“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir Hvatningarverðlaunin afar mikilvæg. „Háskólinn setur jafnréttismál í víðum skilningi á oddinn og speglast það m.a. í stefnu Háskóla Íslands og jafnréttisáætlun. Mér þykir því afar ánægjulegt að Háskóli Íslands komi að Hvatningarverðlaunum jafnréttismála. Menntun og vísindi eru styrkur og á álagstímum eins og þessum sýnir það sig að samstarf ólíkra sérfræðinga með alls kyns bakgrunn er besta vopnið í baráttu við skæðan andstæðing. Jafnrétti skiptir líka miklu máli þegar kemur að öðrum áskorunum nútímans. Í því samhengi er samvinna menntastofnana og atvinnulífsins nauðsynleg til að búa til samfélag sem fagnar fjölbreytileika sínum, getur tekist á við óvæntar áskoranir og dafnað.“

Upptöku af morgunfundinum um jafnréttismál má nálgast á Facebook-síðu Samtaka atvinnulífsins en meðal þeirra sem tóku til máls á honum voru rektor og Úlf Viðar Níelsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sem fjallaði um áhrif #MeToo og mála sem tengjast kynferðislegri áreitni og ofbeldi á virði fyrirtækja.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, og Ágústa Bjarnadóttir, forstöðumaður mannauðs hjá fyrirtækinu, veittu verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur atvinnu- og nýsköpunarráðherra.