Sjötíu doktorar brautskráðir frá Háskóla Íslands á undanliðnu ári | Háskóli Íslands Skip to main content
30. nóvember 2020

Sjötíu doktorar brautskráðir frá Háskóla Íslands á undanliðnu ári

Sjötíu doktorar brautskráðir frá Háskóla Íslands á undanliðnu ári - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands hefur á undanförnum 12 mánuðum brautskráð 70 doktora af öllum fimm fræðasviðum skólans og þannig náð að uppfylla markmið í stefnu skólans þrátt fyrir krefjandi aðstæður kórónuveirufaraldurs. Skólinn fagnar þessum glæsilega hópi með öðrum hætti en venja er á fullveldisdaginn 1. desember. 

Að öllu óbreyttu hefði skólinn boðið doktorahópnum á árlega Hátíð brautskráðra doktora sem haldin hefur verið í nær áratug þann 1. desember í Hátíðasal skólans. Samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins koma hins vegar í veg fyrir að slíkt sé hægt að þessu sinni. 

Á hátíðinni hafa nýir doktorar fengið afhent gullmerki Háskóla Íslands. Frá þeirri venju var ekki vikið því skólinn hefur sent öllum doktorunum gullmerkið í pósti ásamt bæklingi með yfirlit yfir alla nýja doktora frá Háskóla Íslands á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 1. desember 2020.  Sem fyrr segir eru þeir 70 talsins, 28 karlar og 42 konur. Sex doktoranna eru með sameiginlega doktorsgráðu frá Háskóla Íslands og erlendum háskóla og þá eru 38 prósent doktoranna með erlent ríkisfang. 

Með brautskráningu þessa stóra hóps hafa nú nærri 900 kandídatar lokið doktorsprófi frá Háskóla Íslands á því 101 ári sem liðið er síðan fyrsta doktorsvörnin fór fram. Páll Eggert Ólason, síðar prófessor og rektor, varð fyrstur til að verja ritgerð sína við skólann þann 25. október 1919.

Aðstæður flestra þeirra sem brautskráðst hafa á síðustu 12 mánuðum hafa markast af yfirstandandi heimsfaraldri og þá hafa doktorsvarnir litast mjög af takmörkuðum ferðalögum fólks um heiminn. Þannig hafa fjölmargir andmælendur á doktorsvörnum tekið þátt í þeim um netið og ljóst má vera að í því fyrirkomulagi felast tækifæri til framtíðar.

Háskólinn hefur í stefnu sinni, HÍ21, haft það að markmiði að brautskrá 70 doktora á ári og því markmiði nær hann í ár. Er það ekki síst að þakka elju og staðfestu doktoranna sjálfra, leiðbeinenda þeirra, fjölskyldna og annars samstarfsfólks við krefjandi aðstæður. 

Hefð er fyrir því að forseti Íslands taki þátt í Hátíð brautskráðra doktora. Þar sem ekki var unnt að halda hátíðina hefur skólinn sett saman myndband sem helgað er framlagi doktorsnema til skólans og markmiði hans að verða alþjóðlega viðurkenndur rannsóknaháskóli sem leggur jafnframt sitt af mörkum til íslenskt samfélags. 

Háskóli Íslands er afar stoltur af þeim glæsilega hópi sem lokið hefur doktorsnámi frá skólanum undanfarna 12 mánuði en hann hefur þegar haslað sér völl á fjölbreyttum vettvangi atvinnu- og þjóðlífs og reyndar í störfum um heim allan. Skólinn óskar þeim innilega til hamingju með doktorsgráðuna og allra heilla í lífi og starfi. 

Yfirlit yfir brautskráða doktora á tímabilinu 1. desember 2019 til 1. desember 2020 og verkefni þeirra má finna í meðfylgjandi bæklingi.

"Samsett mynd af 70 doktorum"