Skip to main content
4. febrúar 2021

Sjónvarpsþáttaröð um 100 ára hagsmunabaráttu stúdenta

Sjónvarpsþáttaröð um 100 ára hagsmunabaráttu stúdenta - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Við vildum kjarna sögu hagsmunabaráttu stúdenta á þessum merku tímamótum. Stúdentaráð hefur enda sett svip sinn á samfélagið í heila öld með málflutningi og aðgerðum sem hafa leitt til stórra og smárra sigra,“ segir forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Isabel Alejandra Diaz. Tilefnið er heimildaþáttaröð um sögu stúdentahreyfingarinnar, eða SHÍ, á RÚV, Baráttan - 100 ára saga Stúdentaráðs. Fyrsti þátturinn verður einmitt sýndur í Sjónvarpinu í kvöld, fimmtudaginn 4. febrúar.

Isabel er fyrsti einstaklingurinn af erlendum uppruna til að leiða Stúdentaráð en hún rekur ættir sínar til Mið-Ameríkuríkisins El Salvador. Isabel er 24 ára Ísfirðingur og er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún segir að ástæða þáttagerðarinnar liggi í mikilvægi þess að rýna betur í ólíka kafla í sögunni og gera sér betur grein fyrir því hvernig Stúdentaráð hafi byggt öflugt samfélag innan Háskóla Íslands og haft áhrif innan skólans langt út fyrir hann sjálfan.

„Okkur þótti líka borðleggjandi að gera þeim hátt undir höfði sem hafa komið að hagsmunabaráttunni með einum eða öðrum hætti.“ 

Fróðlegir þættir um merka sögu

Það er ekki í lítið ráðist að vinna fjóra fróðlega þætti um þessa merku sögu. Að sögn Isabel er stiklað á stóru í „yfir 100 ára sögu vonar og baráttu sem á sér ekki hliðstæðu,“ eins og hún orðar það.

„Við förum yfir mismunandi áherslur ráðsins í gegnum árin, sem hafa oftar en ekki snúist um eðli stúdentahreyfingarinnar, þetta hvort Stúdentaráð eigi að vera pólitískt og beita sér út fyrir háskólasamfélagið eður ei.“

Í þáttaröðinni er rætt við stjórnmálafólk og þjóðþekkta einstaklinga sem stigu mikilvæg skref í Stúdentaráði. „Þá er fjallað um stúdenta í framlínunni í menningu og listum og sagt frá skemmtilegum uppákomum sem hafa átt sér stað í gegnum tíðina. Stúdentaráð er á svipuðum aldri og sjálft Ríkisútvarpið og Hæstiréttur Íslands. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því ráðið var stofnað og sýn stúdenta á framtíðina er skýr. Lokaþátturinn fjallar einmitt um það hvert við stefnum, enda eigum við enn margt inni,“ segir forsetinn.  

Mikil vinna og lærdómsríkt að framleiða þættina

Isabel segir það hafa verið afar lærdómsríkt að framleiða þáttaröðina. „Þetta var mikil vinna sem segir okkur að á þessum tímamótum sé hlutverk Stúdentaráðs áríðandi en ekki síður þátttaka stúdenta sjálfra í hagsmunabaráttunni. Þegar á heildina er litið hefur það verið mjög hvetjandi og sömuleiðis fallegt að fræðast meira um hreyfinguna og að heyra frá breiðum hópi fólks um aðkomu að baráttunni. Það er ótrúlega dýrmætt.“ 

Forsetinn segir að skrifstofa Stúdentaráðs og handritsteymi þáttaraðarinnar hafi sett sig í samband við fjölda fólks sem hafi í öllum tilvikum haft eitthvað merkilegt til málanna að leggja.

„Það er til dæmis mjög merkilegt að akkúrat á þessu starfsári erum við að reyna margt af því sem fyrirrennarar okkur upplifðu. Sem dæmi var áhugavert að bera okkur saman við árin 1970 til 1975 þegar sprenging varð í fjölgun nemenda við Háskóla Íslands. Þá fjölgaði þeim í tæplega 2.200 manns sem var tvöföldun. Þær tölur eru kannski lágar í dag en á þessu ári hefur metfjöldi hafið nám við Háskóla Íslands og eru hartnær 15 þúsund!“ 

Isabel segir að barátta fyrir fjárhagsöryggi stúdenta hafi áður komið við sögu.  „Nánar tiltekið á árunum 2008 til 2010 vegna efnahagshrunsins þar sem mikið atvinnuleysi blasti við, fjölgun nemenda var einnig söguleg þá og fjármögnun háskólans mikið baráttumál. Þá var einmitt farið af stað með sumarnám eins og í fyrra.“

Isabel segir að fjárhagsstaða stúdenta hafi verið í uppnámi vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins frá því í mars í fyrra og í því samhengi sé vert að nefna að eitt helsta baráttumál stúdenta hafi verið að tryggja stúdentum rétt að atvinnuleysistryggingakerfinu. „Réttur sem við vorum svipt í ársbyrjun 2010 eftir hrunið.“ 

Starfsemi Stúdentaráðs skiptir höfuðmáli

„Starfsemi Stúdentaráðs skiptir raunar höfuðmáli því meginhlutverk þess er að tala máli eins stærsta stúdentahópsins á landsvísu,“ segir Isabel um tilgang ráðsins. „Það er mikilvægt að stúdentar hafi einhvern til að treysta sem gætir hagsmuna þeirra bæði gagnvart skólanum og stjórnvöldum. Þetta snýst einfaldlega um að stúdentar fái að koma að allri ákvarðanatöku sem viðkemur þeim sjálfum en fái líka tækifæri til blómstra og styrkjast. Það er allra hagur. Það er sameiginlega hugsjónin um framþróun, samvinnu og heiðarleika sem drífur okkur áfram.“
 

Isabel Alejandra Diaz og nemendur í stjórnmálafræði