Skip to main content
25. október 2018

Sjö verkefni taka þátt í samfélagshraðlinum Snjallræði

""

Sjö framúrskarandi verkefni á sviði samfélagslegrar frumkvöðlastarfsemi voru valin til þátttöku í samfélagshraðlinum Snjallræði á dögunum í tengslum við árlega friðarráðstefnu Höfða friðarseturs í Háskóla Íslands. Aðstandendur verkefnanna munu á næstu vikum þróa hugmyndina áfram með aðstoð fremstu sérfræðinga landsins á sviði nýsköpunar.

Snjallræði, sem er fyrsti íslenski hraðallinn fyrir samfélagslega nýsköpun, var ýtt úr vör í vor en hraðlinum er ætlað stuðla að fjölbreyttari nýsköpun hér á landi og skapa vettvang fyrir aukið samfélagslegt frumkvöðlastarf. Að hraðlinum standa Höfði friðarsetur, sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, og Nýsköpunarmiðstöð Íslands en auk þessara aðila koma Listaháskóli Íslands, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Háskólinn í Reykjavík og Icelandic Startups að verkefninu. Landsvirkjun er bakhjarl Snjallræðis.

Kallað var eftir hugmyndum í hraðalinn snemma sumars og bárust 40 umsóknir í þetta fyrsta sinn sem keppnin er haldin. Dómnefnd Snjallræðis valdi á endanum sjö verkefni til þátttöku í hraðlinum og eru þau afar fjölbreytt og metnaðarfull og leita lausna við ólíkum samfélagslegum áskorunum. Teymin fá vinnuaðstöðu í Húsi skapandi greina við Hlemm á sjö vikna tímabili í október og nóvember og stuðning við að þróa hugmyndina áfram og koma henni í framkvæmd ásamt þjálfun frá fremstu sérfræðingum Íslands.

Eftirfarandi verkefni taka þátt í Snjallræði 2018:

Móttöku- og meðferðarsetur fyrir ungt fólk í vanda: Markmiðið með setrinu er að bjóða upp á þverfaglega og samþætta meðferð þar sem unnið er með geðrænan vanda, vímuefnavanda og áföll en einnig endurhæfingu og almenna lífsleikni. Eftirfylgni verður öflug og áframhaldandi meðferð og stuðningur veittur með skóla og/eða atvinnu. Þá verður starfsemin öll hönnuð með ungt fólk og þarfir þeirra í huga, m.a. með tilliti til sköpunar, lista og íþróttaiðkunar.

Reykjavík er okkar: Hugmyndin, sem bar sigur úr býtum í Borgarhakki Reykjavíkurborgar fyrr á árinu, felur í sér snjallforrit sem virkjar kraft borgarbúa í þágu okkar allra. Með forritinu verður fólki gert kleift að sjá myndir af eignum borgarinnar í nærumhverfi sínu og taka að sér umhirðu og viðhald á þeim eftir vilja og hentugleik. Í skiptum fyrir umhirðuna myndi borgin umbuna þeim með inneign sem fólk getur leyst út, til dæmis í formi hækkaðs frístundastyrks, lækkun á rafmagnsreikningi eða annarri þjónustu frá borginni. 

Samfélagshús: Húsinu er ætlað að tengja saman íslenskt samfélag og fólk af erlendum uppruna á fjölbreyttan og skapandi hátt. Sérstök áhersla verður lögð á að ná til flóttafólks og fólks í viðkvæmri samfélagsstöðu. Húsinu er í senn ætlað að vera menningarhús, fræðslumiðstöð og griðarstaður fyrir fólk sem vill kynna þekkingu sína og áhugamál fyrir öðrum - staður þar sem ólíkir menningarhópar mætast með það að markmiði að kynnast og tengjast. 

Samgönguspor: Verkefnið snýst um að koma á laggirnar þjónustu sem aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við að innleiða og framfylgja samgöngustefnu til þess að hafa áhrif á ferðahegðun fólks og viðhorf til vistvænna ferðamáta. Rannsóknir sýna að innleiðing samgöngustefnu hjá fyrirtækjum, stofnunum og skólum er gríðarlega áhrifamikil leið til þess að breyta ferðavenjum starfsmanna. Á Íslandi vantar þjónustu til að aðstoða fyrirtæki við að halda utan um samgöngusamninga, gögn og greiningu, og eftirfylgni. Að sama skapi skortir starfsmenn þægilegt skráningarkerfi og ríkari hvatningu. 

Sveppir nýttir til að hreinsa menguð landsvæði: Hugmyndin snýst um að láta valda sveppi hreinsa og endurheimta landsvæði sem hafa spillst af völdum mengunar og/eða fyrirbyggja umhverfisslys þar sem slík hætta er fyrir hendi. Í svepparíkinu má finna tegundir sem í sameiningu geta brotið niður öll helstu eiturefni sem ógna lífi á jörðinni, þar á meðal kemísk, geislavirk og þrávirk lífræn efni, olíur og jafnvel plast. Sveppir sundra þrávirkum efnum í meðfærilegri einingar sem aðrar lífverur geta nýtt sér. Þannig hrinda þeir af stað keðjuverkandi niðurbroti á eitruðum efnum sem að öðrum kosti safnast upp með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Tilraunir sem gerðar hafa verið með hreinsunarstarf sveppa sýna fram á mjög skjótan og áhrifaríkan árangur.

BFSUBL, Byggingarsamvinnufélag Samtaka um bíllausan lífsstíl: Hugmynd samtakanna gengur út á að reisa og reka bíllaust hverfi í Reykjavík. Lagt verður upp úr því að byggja góðar og traustar íbúðir á viðráðanlegu verði sem og leiguhúsnæði. Byggðin verður þétt en lágreist með umhverfisvænu húsnæði. Þröngar götur í hverfinu verða göngugötur en bílum hleypt í gegn í neyðartilvikum. Nokkur bílastæði verða í útjaðri hverfisins. Hugmyndin er að gera þeim sem vilja lifa bíllausum lífstíl kleift að búa í notalegu umhverfi sem samræmist þörfum þeirra og hugsjónum.

Farsæl öldrun – Þekkingarmiðstöð: Markmið verkefnisins er að koma á fót þekkingarmiðstöð í öldrunarþjónustu sem starfa mun á landsvísu, miðla þekkingu um öldrunarmál til starfsfólks og almennings með fjölbreyttum miðlunarleiðum og veita gagnreynda ráðgjöf til stofnana. Rík þörf er á að stuðla að nýrri menningu í öldrunarþjónustu, bæta þjónustuna og starfsumhverfi með notkun nýjustu þekkingar og aðferða. Jafnframt þarf að auka skilvirkni og nýtingu á því takmarkaða fjármagni sem er til ráðstöfunar innan atvinnugreinarinnar með því að gera þekkingu aðgengilegri á landsvísu. 

Myndir frá friðarráðstefnunni og úrslitum Snjallræðis eru á myndasíðu Háskólans.

Fulltrúar vinningsteymana í Veröld - húsi Vigdísar að lokinni verðlaunaafhendingu.