Skip to main content
18. nóvember 2022

Sjálfbærni- og samgöngumál rædd á 30. háskólaþingi HÍ

Sjálfbærni- og samgöngumál rædd á 30. háskólaþingi HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sjálfbærniáherslur í stefnu Háskóla Íslands, fyrsta sjálfbærniskýrsla skólans og skipulag og samgöngur á háskólasvæðinu til framtíðar er meðal þess sem verður til umræðu á háskólaþingi Háskóla Íslands sem fram fer í Hátíðasal Aðalbyggingar föstudaginn 18. nóvember kl. 13.00-15.30. Þetta er í 30. sinn sem þingið er haldið og verður hægt að fylgjast með því í beinu streymi.

Háskólaþing er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Þingið fjallar um og tekur þátt í að móta sameiginlega stefnu Háskóla Íslands og á því eiga sæti rektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar og kjörnir fulltrúar fræðasviða, fulltrúar helstu stofnana háskólans og samstarfsstofnana hans, kennarafélaga og stúdenta auk fulltrúa starfsmanna stjórnsýslu og úr háskólaráði. Alls sækja um 100 manns háskólaþing að þessu sinni. 

Þetta er á 30. háskólaþing skólans en fyrsta háskólaþingið, sem þá hét háskólafundur, var haldið 4.-5. nóvember 1999. Haldnir voru 25 háskólafundir en árið 2008 var nafninu breytt í háskólaþing og eru því háskólafundir og -þing samanlagt orðin 55. 

Þrjú mál verða tekin til umfjöllunar á þinginu að þessu sinni. Fyrst reifar Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, þau mál sem eru efst á baugi innan skólans. Í framhaldinu verður fjallað um sjálfbærnimál á vettvangi Háskóla Íslands. Steinunn Getsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, mun þar fara yfir sjálfbærniáherslur í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26. Í framhaldinu kynna þær Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir, Lára Hrönn Hlynsdóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Sæmundar fróða, og Sólrún Sigurðardóttir, verkefnisstjóri hjá framkvæmda- og tæknisviði, fyrstu sjálfbærniskýrslu skólans sem kom út á dögunum en þær eru aðalhöfundar skýrslunnar.

Eftir kaffihlé verður rætt um skipulag, framkvæmdir og samgöngur á háskólasvæðinu. Þar mun Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor og formaður skipulagsnefndar háskólasvæðisins, fara yfir þróunaráætlun fyrir svæði Háskóla Íslands sem er samstarfsverkefni skólanss og Reykjavíkurborgar, og Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, fjalla um framkvæmdir og áætlanir í samgöngu- og bílastæðamálum á háskólasvæðinu á næstu misserum. 

 

Frá háskólaþingi