Sigurður tekur við viðurkenningu Bandarísku jarðefnafræðisamtakanna | Háskóli Íslands Skip to main content

Sigurður tekur við viðurkenningu Bandarísku jarðefnafræðisamtakanna

30. ágúst 2018

Roberta Rudnick, forseti Bandarísku jarðefnafræðisamtakanna (Geochemical Society), afhenti Sigurði Reyni Gíslasyni, vísindamanni við Jarðvísindastofnun Háskólans, Clair C. Patterson verðlaunin 13. ágúst síðastliðinn að viðstöddu fjölmenni á ársfundi samtakanna í Boston. Verðlaunin eru ein af virtustu viðurkenningum sem veittar eru á sviði jarðefnafræði. 

Verðlaunin eru veitt fyrir tímamótarannsóknir í jarðefnafræði sem eru mikilvægar fyrir umhverfi og samfélag manna á jörðinni. Sigurður hlýtur verðlaunin fyrir rannsóknir á bindingu koltvíoxíðs í bergi annars vegar og á áhrifum eldgosa á umhverfið hins vegar. 

Sigurður hefur í rúman áratug verið formaður Vísindaráðs CarbFix-verkefnisins svokallaða sem snýst um að binda koldíoxíð í basaltjarðlögum. Að samstarfinu hafa komið, auk Háskóla Íslands, Orkuveita Reykjavíkur, Columbia-háskóli í Bandaríkjunum og Rannsóknarráð Frakklands. Fjöldi vísindamanna hefur tekið þátt verkefninu auk íslenskra og erlendra doktorsnema og hefur það vakið heimsathygli. Tilraunir rannsóknahópsins með bindingu koldíoxíðs með niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun hafa gefið góða raun og binst koldíoxíðið berginu á um tveimur árum en áður var talið að það tæki mörg þúsund ár. Væntingar eru um að aðferðin geti í framtíðinni nýst í baráttunni við hnattræna hlýnun en koldíoxíð er einn helsti orsakavaldur hnattrænnar hlýnunar.

Þess má geta að Sigurður er formaður undirbúningsnefndar fyrir ráðstefnuna The International Carbon Conference sem fram fer hér á landi dagana 10.-14. september, þar á meðal í Háskóla Íslands. Þar koma saman aðstandendur CarbFix og annarra sambærilegra verkefna og miðla reynslu sinni. 

Sigurður hefur í rannsóknum sínum einnig skoðað áhrif eldgosa á umhverfi á Íslandi, nú síðast gossins í Holuhrauni. Gosið spúði eitruðu brennisteinstvíoxíði yfir stór svæði í Evrópu og reyndist magn þess á gostímanum um tólf milljónir. Styrkur brennisteinstvíoxíðs í andrúmslofti fór langt yfir heilsufarsmörk dögum og vikum saman á Íslandi en það var lán í óláni að mengunarinnar gætti mest á svæðum sem ekki eru í byggð. Þá leiddi tímasetning gossins, sem stóð að mestu að vetri til, til þess að brennisteinsmökkurinn barst hratt frá landinu og styrkur brennisteinstvíoxíðs lækkaði í andrúmslofti við dreifinguna.  

Sigurður lauk BS-gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og doktorsprófi í jarðefnafræði frá  Johns Hopkins University í Bandaríkjunum árið 1985. Frá þeim tíma hefur hann starfað sem fræðimaður og síðar vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans.
 

Sigurður Reynir Gíslason tekur við verðlaununum úr hendi Robertu Rudnick, forseti Bandarísku jarðefnafræðisamtakanna.
Gestir á ráðstefnu Bandarísku jarðefnafræðisamtakanna (Geochemical Society) í Boston á dögunum