Skip to main content
24. september 2017

Sigruðu í verkkeppni Viðskiptaráðs Íslands

Nemendur í læknisfræði við Háskóla Íslands og nemandi í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík urðu hlutskarpastir í verkkeppni Viðskiptaráðs Íslands, en efnt var til keppninnar í tilefni af 100 ára afmæli Viðskiptaráðs. Tilkynnt var um sigurvegarana á hátíðardagskrá ráðsins í Háskólabíói fimmtudaginn 21. september. 

Verkkeppnin (e. case competition) var nú haldin í fyrsta sinn og var þema hennar „Hvernig verður Ísland tæknivæddasta land í heimi árið 2030?“ Hún gekk þannig fyrir sig að 4-5 manna lið höfðu eina helgi til þess að móta hugmynd sem sneri að spurningunni en hún er nátengd þeim miklu áskorunum sem fylgja hinni svokölluðu 4. iðnbyltingu sem nú gengur yfir. Liðin áttu að finna eina eða fleiri áskoranir og koma með tillögur að svörum við þeim. Liðin gátu einblínt á það svið sem þau hefðu þekkingu og áhuga á, t.d. að endurhugsa íslenskt lagaumhverfi, bæta samgöngumál, stokka upp í menntakerfinu eða sjálfvirknivæða stjórnsýsluna. Eina krafan var sú að liðin væru lausnamiðuð og frumleg í sinni nálgun.

Fjölmörg lið skipuð nemendum úr ýmsum deildum Háskóla Íslands skráðu sig til leiks og nutu leiðsagnar fjölbreytts hóps leiðbeinenda úr atvinnulífinu við þróun hugmyndanna. Hóparnir kynntu svo frumlegar hugmyndir sínir fyrir dómnefndinni sem skipuð var þeim Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, Steinunni Gestsdóttur, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar við Háskóla Íslands, Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, Katrínu Olgu Jóhannesdóttur, formanni Viðskiptaráðs Íslands, og Stefáni Sigurðssyni, forstjóra Vodafone.

Þegar upp var staðið þótti hugmynd fimm nemenda við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík standa upp úr en hún snerist um að bylta heilbrigðiskerfinu með því að nýta gervigreind. Áhersla yrði lögð á að fyrirbyggja sjúkdóma í stað þess að meðhöndla þá eftir að þeir kæmu fram en þannig mætti draga verulega úr útgjöldum hins opinbera til heilbrigðismála og nýta fjármuni í aðra málaflokka. Sigurliðið skipa þeir Daníel Alexandersson, Viðar Róbertsson, Davíð Þór Jónsson og  Vilhjálmur Pálmason, sem allir eru á sjötta ári í læknisfræði við Háskóla Íslands, og Alexander Jósep Blöndal sem leggur stund á hugbúnaðarverkfræði í Háskólanum í Reykjavík.

Á dagskránni í Háskólabíói þann 21. september fluttu þau  Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Katrín Olga Jóhannesdóttir formaður Viðskiptaráðs ávörp en aðalfyrirlesarinn var Dominic Barton, forstjóri McKinsey & Company, sem fjallaði um forystu á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar. Dagskráin var haldin í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og upptöku af henni má nálgast á vef Viðskiptaráðs.
 

Sigurliðið í verkkkeppni Viðskiptaráðs ásamt Ástu Sigríði Fjeldsted, framkvæmdastjóra Viðskiptráðs og Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra.
Guðni Th. Jóhannesson
Dominic Barton, forstjóri McKinsey & Company
Gestir á dagskránni í Háskólabíói
Dominic Barton, forstjóri McKinsey & Company