Sigruðu í hakkaþoni á nýsköpunarráðstefnu | Háskóli Íslands Skip to main content

Sigruðu í hakkaþoni á nýsköpunarráðstefnu

11. júní 2018
""

Lið fimm nemenda við Háskóla Íslands varð hlutskarpast í svokölluðu hakkaþoni sem fór fram í tengslum við ráðstefnuna Startup Iceland í Hörpu 31. maí sl. Verkefni hópsins snerist um að þróa nýja tegund af milliliðalausu lánaappi.

Hakkaþonið sjálft fór fram í aðdraganda nýsköpunarráðstefnunnar, dagana 29. og 30. maí, og var haldið í samtarfi Startup Iceland við fyrirtækin Digi.me og Angelahack. „Hakkaþon er í raun hraðstökkpallur og forritunarkeppni í einu. Þáttakendur koma saman 2-5 í hóp og vinna í rúman sólarhring að hugmynd frá grunni, hvort sem það er að forrita t.d. vefsíðu eða app eða hanna einhverja skemtilega tækni. Í lokin kynna þátttakendur verkefni sín og veitt eru verðlaun sem tengjast þemum eða áherslum hakkaþonsins,“ segir Sara Björk Másdóttir, nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Hún skipaði sigurliðið ásamt þeim Irmu Leinerte, Kim Stroem og Jóhanni Erni Sigurjónssyni, sem einnig leggja stund á tölvunarfræði í HÍ, og Þorkeli Einarssyni, meistaranema í verkefnastjórnun og heimspeki við HÍ. 

„Ég ákvað að taka þátt í hakkaþoninu vegna þess að ég er að skipuleggja hakkaþon sjálf og er almennt mjög spennt fyrir svona hlutum enda vill maður fá fleiri tækifæri til þess að láta reyna á það sem maður lærir í skóla,“ segir Sara. „Hakkaþon snýst í raun ekki um að hakka heldur um að skapa. Ég hafði heyrt að þátttaka í hakkaþoni væri afar lærdómsrík og ég komst að því að það var rétt!“ bætir Jóhann Örn við og undir það tekur Irma. „Ég var svo heppin að fá að taka þátt í námskeiði í Edinborg í apríl þar sem ég fékk að hakka í þrjá daga. Þá komst ég að því að þessir viðburðir eru mjög vinsælir í háskólum og hjá stórfyrirtækjum víða um heim og þeir eru stórskemmtilegir. Ég komst svo að því að það ætti loksins að bjóða upp á hakkaþon í Reykjavík og ákvað að slá til,“ segir hún.

Sigurverkefni hópsins er app sem ber nafnið Paper lones. „Það er svokallað p2p (peer to peer) lánakerfi þar sem notendum er gert kleift að lána og fá lánaða peninga án þess að fara í gegnum milliliði. Við sáum að hinar ýmsu smálánaþjónustur eru mjög umtalaðar á Íslandi og einnig hversu erfitt og óhagstætt það getur verið að fá lán í banka eða að þurfa
treysta á vaxtarreikninga ef maður kann ekki að fjárfesta,“ segir Sara sem segir hugmyndina svar við þessum vandamálum.

Þar sem fjórir tölvunarfræðinemar reyndust í hópnum reyndist forritun á frumgerð snjallsímaforrits ekki mikið vandamál. Aðspurð segja þau að reynsla úr náminu af því að vinna sjálfstætt og afla heimilda haf reynst vel en ólíkur bakgrunnur liðsins hafi einnig skipt máli. „Gott hakkaþonlið verður hafa yfir að ráða fjölbreyttri þekkingu, ekki síst í markaðsrannsóknum, markaðssetningu og grafískri hönnun. Það þarf í raun alls ekki að kunna að forrita til að taka þátt en það er nauðsynlegt að hvert lið hafi a.m.k. einn færan forritara,“ segir Jóhann. 

Að verðlaunum fékk hópurinn m.a. aðgöngumiða að nýsköpunarráðstefnunni SLUSH í Finnlandi í desember nk. ásamt flugi og gistingu. Ráðstefnan er eins sú stærsta og þekktasta í heiminum á sviði nýsköpunar. 

Sara og tvær af skólasystrum hennar í tölvunarfræðinni vinna nú að því að koma á fót hakkaþoni innan Háskóla Íslands. Sara segir þátttöku í slíkum viðburðum geta eflt trú háskólanema á eigin getu og opnað á ný tækifæri á vinnumarkaði. „Með þátttöku í hakkaþoni öðlast nemendur dýrmæta reynslu sem fæst ekki endilega í náminu en getur komið að miklu gagni þegar haldið er út í harða samkeppni um störf á vinnumarkaðnum. 
Svo er þetta líka frábært tækifæri til þess að læra að vinna í hóp, prófa sig áfram með nýja tækni, æfa framkomu og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn,“  segir Sara og bætir við: „Eftir að hafa tekið þátt í þessu hakkaþoni sé ég ennþá betur að það eru engin takmörk fyrir því hversu mikið við getum vaxið og öðlast aukið sjálfstraust, þó að þetta sé aðeins einn sólarhringur, bara með því að fá réttu tækifærin í hendurnar. Ég skora á HÍ að vinna með okkur að því að efla hakkaþonmenninguna á Íslandi!“

Hluti sigurliðsins á hakkaþoninu í Hörpu. Frá vinstri: Irma Leinerte, Jóhann Örn Sigurjónsson, Sara Björk Másdóttir og Þorkell Einarsson.