Skip to main content
16. október 2017

Sigruðu í forritunarkeppni háskólanna á Íslandi

frá tölvuveri

Þrír stærðfræðinemar við Raunvísindadeild Háskóla Íslands sigruðu í íslenska hluta forritunarkeppninnar Nordic Collegiate Programming Contest (NCPC) sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík 7. október síðastliðinn. Sigurvegarnir stefna á þátttöku í sams konar móti í Englandi í næsta mánuði.

Sigurliðið skipa þeir Garðar Andri Sigurðsson, Atli Fannar Franklín og Sigurður Jens Albertsson en þeir öttu kappi við átta lið úr Háskólanum í Reykjavík. Keppnin fór fram á sama tíma í öllum norrænu ríkjunum og í lok hennar voru Norðurlandameistarar í forritun krýndir.

„Í hverju liði voru þrír þátttakendur sem höfðu yfir einni tölvu að ráða og áttu að leysa tólf dæmi á fimm klukkustundum. Við fengum ákveðið inntak í hverju dæmi og áttum að reikna okkur niður á ákveðna niðurstöðu. Þetta er því stærðfræðilegar og tölvunarfræðilegar þrautir,“ segir Garðar Andri um keppnina. 

Aðspurður segir hann dæmin hafa reynt mjög á forritunarhæfni keppenda og til marks um það leysti liðið sex af dæmunum tólf  en mörg hinna íslensku liðanna aðeins þrjú. Þá leystu Norðurlandameistararnir að þessu sinni, Flöätïng·Pöïnts frá Vísinda- og tækniháskólanum í Noregi (NTNU), níu þrautir af 12.

Garðar Andri hefur tekið þátt í keppninni síðustu ár og hann segir þremenningana úr sigurliðinu mikla áhugamenn um keppnisforritun. „Þetta eru mjög skemmtilegar þrautir þar sem reynir mikið á samvinnu,“ bætir hann við.

Sigurvegararnir hér á landi eiga möguleika á að taka þátt í forritunarkeppni háskóla í Norðvestur-Evrópu (North Western European Programming Contest). Sú keppni fer að þessu sinni fram í Bath á Englandi í nóvember og þangað stefna þremenningar enda er það mót forkeppni fyrir sjálft heimsmeistaramót háskólanna í forritun (The ACM-ICPC International Collegiate Programming Contest) sem fram fer í Beijing í apríl á næsta ári. „Við gerum okkur góðar vonir um að komast til Bath en það veltur þó á fjármögnun ferðarinnar. Við erum mjög spenntir fyrir því að fara,“ segir Garðar Andri. 

Háskóli Íslands óskar þeim Garðari Andra, Atla Fannari og Sigurði Jens innilega til hamingju með sigurinn.

Sigurliðið í forritunarkeppni háskólanna á Íslandi, frá vinstri: Atli Fannar Franklín, Garðar Andri Sigurðsson og Sigurður Jens Albertsson.