Siðareglur og sjálfsmat á háskólaþingi | Háskóli Íslands Skip to main content
31. október 2019

Siðareglur og sjálfsmat á háskólaþingi

""

Endurskoðun siðareglna og matskerfis opinberu háskólanna ásamt sjálfsmatsskýrslu Háskóla Íslands eru meginefni háskólaþings Háskóla Íslands sem haldið verður Hátíðasal í Aðalbyggingu fimmtudaginn 31. október kl. 13.00-16.30.

Streymt verður beint frá þinginu

Þingið verður með þeim hætti að eftir að rektor hefur farið yfir það sem er efst á baugi í Háskóla Íslands mun Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor og aðstoðarrektor vísinda, gera grein fyrir endurskoðun siðareglna og starfsreglna siðanefndar Háskóla Íslands. Að loknum umræðum og afgreiðslu reglannna mun Guðbjörg Linda enn fremur kynna stöðu mála við endurskoðun matskerfis opinberu háskólanna.

Síðari hluti þingsins verður helgaður sjálfsmatsskýrslu Háskóla Íslands og munu þau Jón Ólafsson, prófessor og formaður gæðanefndar háskólaráðs, og Áslaug Helgadóttir gæðastjóri fara yfir vinnuferli ytra mats Háskólans og gerð sjálfsmatsskýrslunnar. Í framhaldinu verður fjallað um umbótaverkefni til forgangs innan skólans. Þar taka til máls:

Herdís Sveinsdóttir, prófessor og deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar: Tilgangur og hagnýting ánægjukannana meðal nemenda. Hönnun ferla.

Elsa Eiríksdóttir, dósent við Deild faggreinakennslu: Nýting skilgreindra hæfniviðmiða í tengslum við kennslu, nám og námsmat.

Sveinn Agnarsson, prófessor við Viðskiptafræðideild: Styrking þverfaglegs umhverfis innan Háskóla Íslands.

Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild: Styrking umgjarðar og hlutverks doktorsnáms við Háskóla Íslands.

Guðmundur Valur Oddsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild: Notkun ytri samanburðar í gæðastarfi og formgerð samstarfs við hagaðila í tengslum við skipulag námsleiða.

Daði Már Kristófersson, prófessor og forseti Félagsvísindasviðs: Aðgangskröfur, endurkoma og brautskráningarhlutfall.

Háskólaþing er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Þingið fjallar um og tekur þátt í að móta sameiginlega stefnu Háskóla Íslands og á því eiga sæti rektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar og kjörnir fulltrúar fræðasviða, fulltrúar helstu stofnana háskólans og samstarfsstofnana hans, kennarafélaga og stúdenta auk fulltrúa starfsmanna stjórnsýslu og úr háskólaráði. Um 100 manns sækja háskólaþing að jafnaði.
 

Frá Háskólaþingi í Hátíðasal.