Skip to main content
20. desember 2018

Setberg verður hús kennslunnar í Háskóla Íslands

Háskóli Íslands tekur aftur við byggingunni Setbergi, sem er norðan við Aðalbyggingu skólans, frá Þjóðminjasafni Íslands og mun hún fá nýtt hlutverk sem hús kennslunnar við Háskóla Íslands á næstu mánuðum. Þar verður m.a. ýmis þróunarvinna tengd kennslu, kennslustofur og aðstaða fyrir kennara til þess að tileinka sér rafræna kennsluhætti. Formleg afhending Setbergs fór fram í dag, fimmtudaginn 20. desember, að viðstöddum Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði og hluta þess starfsfólks Háskólans sem vinna mun í byggingunni.  

Setberg er ein elsta byggingin á háskólasvæðinu en hún var reist fyrir fé úr Happdrætti Háskóla Íslands og opnuð árið 1937. Lengi vel gekk byggingin undir nafninu Atvinnudeildarhúsið enda fóru þar fram rannsóknir tengdar helstu atvinnugreinum Íslendinga á þeim tíma, landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði. Árið 1968 fékk húsið nýtt hlutverk en þá fluttust rannsóknir og kennsla í jarðfræði og síðar landfræði í húsið. Því hlutverki gegndi byggingin þar til Askja, náttúrufræðahús Háskóla Íslands, var opnuð snemma á þessari öld og frá árinu 2006 hefur byggingin hýst skrifstofur Þjóðminjasafns Íslands.

Hún fær nú enn á ný nýtt hlutverk sem hús kennslunnar við Háskóla Íslands. Þar munu kennarar m.a. hafa aðstöðu til að tileinka sér nýjungar í kennslufræði háskólakennslu og vinna saman að þróunarverkefnum er tengjast kennslu í samvinnu við innlenda og erlenda kennslusérfræðinga. Í Setbergi verða einnig kennslustofur sem hannaðar verða  til að þjóna nútíma kennsluháttum auk ýmiss konar fundaraðstöðu sem kennarar og kennslusérfræðingar fræðasviða geta nýtt sér. Þar fá kennarar jafnframt tækifæri til að tileinka sér rafræna kennsluhætti og aðstoð við að ná tökum á nýju námsumsjónarkerfi sem tekið verður upp við skólann á næsta ári. 

Í Setbergi verður góð aðstaða til að fræðast um og framkvæma rafræn próf en stefnt er að því að allt prófahald við skólann verði rafrænt á næstu misserum. Í húsinu verður fyrsta flokks upptökuaðstaða þar sem kennarar geta tekið upp kennsluefni til að nýta við fjarkennslu og við gerð opinna netnámskeiða, en Háskólinn býður m.a. opin netnámskeið innan edX sem er samstarfsvettvangur sem Harvard-háskóli og MIT komu á fót. 

Áherslurnar í hinu nýja húsi kennslunnar eru í takt við stefnu Háskóla Íslands, HÍ21, og nýja stefnu skólans um gæði náms og kennslu þar sem lögð er mikil áhersla á bætta kennsluhætti. Með tilkomu Setbergs skapast jafnframt möguleiki á að sameina undir einu þaki þær einingar skólans sem sinna stuðningi við kennara og deildir Háskólans á sviði kennslu, eins og Kennslusvið skólans, prófaskrifstofu og Kennslumiðstöð HÍ. Þá mun Menntavísindasvið hafa útstöð í Setbergi en námsleiðin Kennslufræði háskóla, sem Kennslumiðstöð skipuleggur og hefur daglega umsýslu með, tilheyrir fræðasviðinu. Auk þess skapast þar rými fyrir samstarf milli Kennslusviðs, Upplýsingatæknisviðs og fleiri eininga skólans um þróun rafrænna kennsluhátta.

Hús kennslunnar verður því vettvangur samstarfs og samvinnu um stuðning við gæðakennslu sem í senn svara kalli nemenda um nútímakennsluhætti og kennara um stuðning og hvatningu til að sinna kennslu og kennsluþróun.

Við afhendingu hússins í dag fluttu þau Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, stutt ávörp þar sem undirstrikað var hversu gott samstarf stofnananna tveggja og ráðuneytisins hefði verið í tengslum við undirbúning afhendingar hússins. Að ávörpum loknum var gestum boðið að skoða húsakynnin sem brátt munu hýsa fjölbreytta starfsemi sem tengist kennslu í Háskóla Íslands.
 

Formleg afhending Setbergs fór fram í dag, fimmtudaginn 20. desember, að viðstöddum Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði og hluta þess starfsfólks Háskólans sem vinna mun í byggingunni.
Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, handsala samkomulaga um afhendingu Setbergs að viðstaddri Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og starfsmönnum Háskólans og Þjóðminjasafnsins. MYND/Kristinn Ingvarsson
Setberg