Sendiherra Kólumbíu heimsótti HÍ | Háskóli Íslands Skip to main content

Sendiherra Kólumbíu heimsótti HÍ

3. nóvember 2017
""

Sonia Duran, sendiherra Kólumbíu með aðsetur í Stokkhólmi, heimsótti Háskóla Íslands á dögunum og fundaði með Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Arnljóti Bergssyni, sviðsstjóra hjá Matís, og Friðriku Harðardóttir, forstöðumanni Skrifstofu alþjóðsamskipta, þar sem m.a. voru rætt um möguleg samstarfsverkefni auk jafnréttismála. Unnið hefur verið að undirbúningi samstarfsverkefna milli Kólumbíu og Íslands, einkum á sviði jarðvarma og sjávarútvegs, þar á meðal með Matís að verkefnum um betri nýtingu sjávarfangs. 

Sögulegir friðarsamningar voru undirritaðir á síðasta ári milli stjórnvalda í Kólumbíu og kólumbísku skæruliðasamtakanna FARC eftir yfir hálfrar aldar átök í landinu. Samningaviðræðurnar, sem stóðu yfir í mörg ár, leiddu Norðmenn og Kúbverjar en þær sneru ekki eingöngu að hernaði FARC heldur náðu einnig til eiturlyfjaræktunar og -sölu sem voru grundvöllur fjármögunar samtakanna. Nú þegar friðarsamningar eru í höfn leggja kólumbísk yfirvöld áherslu á uppbyggingu landsins en í því felst bæði að efla menntun í landinu og skapa atvinnutækifæri fyrir landsmenn.

Í tilefni heimsóknarinnar bauð Sonia Duran nemendum og starfsfólki Háskóla Íslands á sýningu á kólumbísku verðlaunakvikmyndinni Embrace of the Serpent í Veröld – húsi Vigdísar og var hún vel sótt.
 

Friðrika Harðardóttir, Jón Atli Benediktsson, Sonia Duran og Arnljótur Bergsson.

Netspjall