Skip to main content
14. janúar 2019

Samtal við samfélagið í heilt ár

„Meginástæða þess að við ákváðum að byrja með hlaðvarpið var sú að við teljum mikilvægt að skoða samfélagið út frá félagsfræðilegu sjónarhorni og að miðla rannsóknum í félagsfræði og félagsvísindum til almennings,“ segir Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, en hún hóf fyrir réttu ári útsendingar á hlaðvarpsþættinum Samtal við samfélagið ásamt Kjartani Páli Sveinssyni, félagsfræðingi og nýdoktor.  Þættinum hefur verið miðlað á vefsvæði Kjarnans og hefur hann notið almikilla vinsælda enda nýstárlegt hvernig þau stallsystkin nálgast viðfangsefnin sem öll tengjast samfélagsmálum. Þau hafa framleitt meira en 40 þætti á því ári sem liðið er frá því fyrsti þátturinn fór í loftið en í þeim þætti ræddi Sigrún við Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, um félagsfræðina almennt og hvernig hún getur hjálpað okkur öllum að skilja samfélagið. 

Það fer vel á því að þau Sigrún og Kjartan geri félagsfræðinni skil í hlaðvarpinu enda bæði með doktorspróf í greininni og kenna að auki félagsfræði við Háskóla Íslands. Kjartan lauk doktorsprófi frá London School of Economics í Bretlandi og Sigrún lauk doktorsprófi frá Indiana-háskóla í Bandaríkjunum. Sigrún bjó þar í hjartær 18 ár og hóf félagsfræðiferil sinn þar, fyrst sem lektor og síðan dósent við hinn mikilsvirta Boston-háskóla.  Hún flutti síðan heim til Íslands sumarið 2016 og hefur gegnt stöðu prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands síðan. Helstu rannsóknarsvið hennar eru heilsufélagsfræði, geðheilsufélagsfræði, stjórnmálafélagsfræði og beitir hún iðulega samanburðarsjónarhorni í rannsóknum sínum. Hún hefur leitt stór alþjóðleg rannsóknarverkefni og má þar helst nefna alþjóðlegu spurningakannanirnar European Social Survey, European Values Study og International Social Survey Programme. Kjartan hefur sérhæft sig í málefnum sem tengjast fólksflutningum, einkum meðal heilbrigðisstarfsfólks, í rasisma og heilbrigðiskerfum. Hann hefur stundað vettvangsrannsóknir í Bretlandi, Nígeríu og á Íslandi. Kjartan starfaði um árabil að rannsóknum og stefnumótun í málefnum minnihlutahópa í Bretlandi hjá Runnymede Trust.

Félagsfræðinni ekkert óviðkomandi
„Áherslurnar hafa verið fjölbreyttar,“ segir Kjartan þegar talinu er vikið að efni þáttanna, „enda segja félagsfræðingar oft að ekkert sé félagsfræðinni óviðkomandi. En það má þó greina nokkur þemu sem hafa verið áberandi, og má þar nefna ójöfnuð, kynjamisrétti, dægurmenningu, stjórnmál og heilbrigðismál. Hlaðvarpið hélt upp á eins árs afmæli sitt í lok nóvember í fyrra og af því tilefni fórum við  yfir helstu málefnin og litum yfir farinn veg, en í þeim þætti ræddum við helstu áhersluefni þáttanna og spiluðum stutt innslög úr eldri þáttum.“

„Þó að áherslan hafi auðvitað verið á félagsfræði,“ segir Sigrún,  „og félagsfræðingar séu oftast viðmælendur, höfum við leitað til fræðimanna í öðrum greinum, til dæmis í fötlunarfræði, lýðheilsu, sagnfræði og stjórnmálafræði.  Við höfum líka leitað til einstaklinga sem hafa verið að gera hluti í samfélaginu sem klárlega tengjast félagsfræði og þeim kenningum og rannsóknum sem stundaðar eru innan hennar. Þar má til dæmis nefna kvikmyndaleikstjóra sem hafa skoðað íslenskt samfélag eða hliðar þess út frá gagnrýnu sjónarhorni, tónlistarfólk sem hefur gert slíkt hið sama og einnig fjölmiðlafólk sem hefur verið áberandi í umræðu um ýmsar hættur sem steðja að frjálsri fjölmiðlun hér á landi,“ segir Sigrún.

Hún bætir því við að það sem helst standi upp úr eftir heilt ár séu skemmtileg samtöl sem þau hafi átt við fólk sem er að gera áhugaverða hluti í samfélaginu okkar. „Sumir þættir hafa jafnvel leitt til áframhaldandi samstarfs, en þar má t.d. nefna málþing sem við skipulögðum með þeim Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur, höfundum Þjáningarfrelsisins, en það málþing var í samstarfi félagsfræðinnar, Kjarnans, Blaðamannafélags Íslands og Forlagsins,“ segir Sigrún. 

„Einnig hefur hlaðvarpið hugsanlega gert okkur að betri félagsfræðingum, það er nokkuð sjálfgefið að félagsfræðingar hafi áhuga á samfélaginu og málefnum líðandi stundar, en umsjón hlaðvarpsins hefur gert okkur enn meðvitaðari um hvað er að gerast í samfélaginu og hvernig má tengja það félagsfræðinni á áhugaverðan hátt.“ 

Hér má hlusta á afmælisþáttinn

Erfitt að mæla hverju þátturinn hefur skilað
„Það er auðvitað erfitt að mæla nákvæmlega hverju þetta hefur allt skilað,“ segir Kjartan, aðspurður um árangurinn af fyrsta árinu,  „en við vitum þó að yfir 700 hafa líkað við Facebook-síðu hlaðvarpsins og hlustað hefur verið á hvern þátt á milli 1.500 og 2.000 sinnum, sem telst víst bara nokkuð gott í þessum íslenska hlaðvarpsheimi,“ segir Kjartan.

Sigrún segir að þau heyri einnig af fólki úr ýmsum geirum atvinnulífsins sem er að hlusta. „Okkur finnst auðvitað sérstaklega skemmtilegt að heyra af fólki sem tengist félagsfræðinni ekki neitt og þar höfum við m.a. heyrt af læknum og prestum sem hlusta reglulega. Við höfum reynt að tengja þetta við kennsluna í félagsfræðinni, þar sem nemendur mega til dæmis velja hlaðvarp að eigin vali og vinna síðan verkefni upp úr því. Það eykur auðvitað bæði fjölbreytni í námi og námsgögnum, en býður líka nemendum að kynnast félagsfræðinni á annan hátt en í hinu hefðbundna kennslurými með einum kennara. Með þessu öðlast nemendur tækifæri til að læra í gegnum verkefnið um ákveðið málefni eða sérsvið frá sérfræðingi. Að lokum má minnast á að við höfum tekið upp allmarga þætti á ensku og þeir hafa auðvitað enn breiðari hlustendahóp og þó að áherslan sé auðvitað á  hvern viðmælanda kemur Ísland alltaf upp. Það gerist til dæmis í gegnum umræður um samstarf sem viðmælandi á við íslenskt fræðafólk eða sérstakan áhuga hans eða hennar á einhverju sem tengist Íslandi. Því má segja að þættirnir séu ákveðin kynning á fræðasamfélaginu á Íslandi, Háskóla Íslands og Íslandi almennt. Enda höfum við séð þá tilhneigingu að erlendu þættirnir eru með meiri hlustun en þeir innlendu, og höfum séð þeim deilt á samfélagsmiðlum af erlendu fræðafólki, t.a.m. á twitter.“

Viðbrögð frá hlustendum 
Þau Sigrún og Kjartan eru á því að það væri vissulega gaman að heyra meira frá hlustendum. Þau segja okkur flest lifa í þannig heimi að svokölluð „like“ og deilingar á samfélagsmiðlum segi mikið um árangur og hlustun. „Það kemur fyrir að fólk sem maður þekkir lítið komi og lýsi yfir ánægju sinni eða minnist á að því hafi þótt einhver sérstakur þáttur áhugaverður eða skemmtilegur. En á heildina litið hugsum við um hvað fólki þyki áhugavert, hver helstu málin eru í samfélaginu á hverjum tíma og svo vonum við bara að fólk sé að hlusta og hafi gagn og gaman af,“ segir Kjartan. 

„Auðvitað vitum við að það eru alltaf einhverjir að hlusta en gaman væri að fá meiri endurgjöf þar sem það gæfi okkur betri innsýn inn í það sem vekur sérstakan áhuga hjá fólki. Annars verð ég að segja að það kom mér á óvart hvað hlustunin er í raun jöfn á milli þátta.  Ég hefði kannski haldið að sumir þættir myndu slá í gegn en að lítið væri hlustað á aðra. Svo virðist þó ekki vera. Það sem við sjáum helst er að eldri þættir eru komnir með hærri hlustunartölur en hinir, sem er auðvitað eðlilegt þar sem að þeir eru aðgengilegir á netinu, og það getur haldið áfram að tikka inn á þá eftir því sem tíminn líður,“ segir Sigrún. 

Fyrir þá sem hafa áhuga á að hlusta þá er hér tengill á heimasvæði þáttarins

Útsendingar á Hlaðvarpinu eru hafnar aftur eftir jólafrí og margt spennandi framundan á árinu, en þar má til dæmis nefna að í fyrsta þættinum spjallar Sigrún við aðalleiðbeinanda sinn úr doktorsnáminu, Bernice A. Pescosolido, prófessor í félagsfræði við Indiana-háskóla. Bernice er einn þekktasti heilsufélagsfræðingur Bandaríkjanna og á meðal örfárra bandarískra félagsfræðinga sem hafa verið valdir inn í National Academy of Medicine. Í rannsóknum sínum hefur Bernice meðal annars skoðað notkun á geðheilbrigðisþjónustu og fordóma gagnvart geðrænum vandamálum og hafa þær Sigrún birt á annan tug fræðigreina saman. 

Sigrún og Kjartan hlakka til að vera áfram með hlaðvarpið á árinu og munu halda áfram á sömu braut. Á næstu vikum og mánuðum munu áhugasamir geta hlustað á þætti með innlendum og erlendum félagsfræðingum en einnig verður boðið upp á viðtöl við fræðafólk, t.d. úr sagnfræði og stjórnmálafræði og fólk sem er að gera áhugaverða hluti í samfélaginu. „Og þó að við séum ánægð með hvernig fyrsta árið tókst til þá erum við auðvitað stöðugt að velta fyrir okkur leiðum til að gera þættina þannig að þeir veiti enn betri innsýn inn í félagsfræðina og íslenskt samfélag,“ segja þau að lokum. 

Sigrún Ólafsdóttir og Kjartan Páll Sveinsson