Samtal við leikhús til heiðurs Vigdísi | Háskóli Íslands Skip to main content
12. mars 2019

Samtal við leikhús til heiðurs Vigdísi

Málfundaröðin Samtal við leikhús hefst í Veröld í dag með umræðu um Ríkharð III eftir William Shakespeare sem nú er verið að sýna í Borgarleikhúsinu. Í pallborði verða Brynhildur Guðjónsdóttir leikstjóri, Hjörtur Jóhann Jónsson leikari, Kristján Þórður Hrafnsson þýðandi og Hrafnhildur Hagalín, listrænn ráðunautur hjá Borgarleikhúsinu, en Ingibjörg Þórisdóttir, dramatúrgur og doktorsnemi, stýrir umræðum. Meðal þess sem rætt verður er hvaða erindi verkið eigi við okkur í dag, hvernig leikstjórinn nálgast uppsetningu verksins og hvernig þýðandinn vinnur úr texta Shakespeare. Viðburðurinn hefst kl. 17 og verður í fyrirlestrasal Veraldar.

Samtal við leikhús er röð málfunda og fyrirlestra þar sem atvinnuleikhúsfólk og fræðimenn í erlendum tungumálum við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur koma saman og ræða uppsetningar á leikverkum sem eru í sýningu hjá leikhúsunum. Tilgangur raðarinnar er að heiðra Vigdísi Finnbogadóttur, skapa vettvang fyrir fræðilega umfjöllun um leikhús og þýddar leikhúsbókmenntir, auka við faglega menningarumfjöllun og vekja athygli á sýningum leikhúsanna og þýðingum á leikverkum úr erlendum tungumálum.

Málfundaröðin heldur áfram síðar í vor, m.a. með umfjöllun um tvær uppsetningar Þjóðleikhússins, Loddarann eftir Moliére og Jónsmessunæturdraum eftir Shakespeare. Tímasetningar viðburðanna verða auglýstar nánar síðar.

Vigdís og leikhúsið

Vigdís Finnbogadóttir starfaði um árabil í þágu leiklistarinnar. Hjá Ríkisútvarpinu sá hún um leiklistarkynningar í sjónvarpsþættinum Vöku um tveggja ára skeið. Hún var einn af stofnendum leikhópsins Grímu árið 1962 en það var fyrsta framúrstefnuleikhúsið hér á landi. Gríma var rekin í Tjarnarbíói og þar voru sett upp leikrit eftir samtímahöfunda eins og Sartre, Ionesco, Max Frisch og Jean Genet. Vigdís þýddi m.a. fyrir þessar sýningar Huis Clos eftir Sartre (Læstar dyr) og Les Bonnes eftir Jean Genet (Vinnukonurnar). Áratug síðar varð hún leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur sem þá var til húsa í Iðnó. Á þeim tíma þýddi Vigdís m.a. gamanleikinn Fló á skinni eftir Georges Feydeau (La Puce à l’Oreille sem gekk í þrjú ár (1972-1975). Vigdís gegndi starfi leikhússtjóra Iðnó í átta ár eða þar til hún var kjörin forseti. Á þessum árum var mikil gróska í leiklistarlífi Íslendinga og áhersla lögð á að kynna og flytja leikrit íslenskra höfunda. Á leikhússtjóraárum Vigdísar hjá Leikfélagi Reykjavíkur stóð metnaður starfsmanna til að ráðast í nýja byggingu fyrir starfsemi Leikfélagsins og þar var Vigdís öflugur liðsmaður. Með sameiginlegu átaki margra aðila var ráðist í að byggja nýtt leikhús sem nú er rekið sem Borgarleikhúsið.

Við upphaf annars kjörtímabils síns sem forseti árið 1984 sagði Vigdís að enginn gæti gert sér fyllilega grein fyrir því hvernig forsetastarfið væri og hvergi væri hægt að læra til forsetastarfa á skólabekk. Forsetinn yrði að starfa í samhljómi við þjóðina sjálfa og slá á þá strengi sem kunna að eiga sér enduróm hverju sinni. Hún hefur sagt að starfið í leikhúsinu hafi reynst henni góður skóli fyrir forsetaembættið.

Vigdís Finnbogadóttir