Skip to main content
9. mars 2020

Samstarfssamningur undirritaður við Fangelsismálastofnun ríkisins

Námsbraut í félagsfræði við Félagsfræði-, mannfræði og þjóðfræðideild og Fangelsismálastofnun ríkisins undirrituðu fyrir helgi samning um aukið samstarf á sviði þjónustu og rannsókna. Samningurinn skapar m.a. kennurum og nemendum í félagsfræði tækifæri til að vinna verkefni í samstarfi við Fangelsismálastofnun.

Samningurinn hefur þegar tekið gildi og munu félagsfræðinemendur verða í starfskynningu í Fangelsismálastofnun á næstu vikum. Verkefnin sem nemendur munu vinna verða einkum á sviði samfélagsþjónustu en það er hagur beggja aðila að styrkja samstarfið og bæta þannig tengsl Fangelsismálastofnunar og fræðasamfélagsins til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

Í samningnum er kveðið á um að hugmyndir að verkefnum geti komið bæði frá Fangelsismálastofnun og námsbraut í félagsfræði. Fangelsismálastofnun býr yfir stóru gagnasafni sem býður upp á margvísleg rannsóknarverkefni fyrir bæði nemendur og kennara. Nemendur eiga til dæmis möguleika á að vinna verkefni fyrir Fangelsismálastofnun sem geta orðið hluti af lokaritgerð. Með samstarfssamningnum er metnaðarfullum nemendum þannig gert kleift að vinna að mikilvægum verkefnum og rannsóknum á íslensku réttarvörslukerfi. Á þennan hátt auka þeir færni sína við meðferð gagna og öðlast dýrmæta reynslu af vinnu við rannsóknir.  

Samningurinn gerir Fangelsismálastofnun sömuleiðis kleift að auka gæði sinnar þjónustu með því að fá til liðs við sig metnaðarfulla nemendur til að sinna afmörkuðum, tímabundnum verkefnum. Til lengri tíma litið getur samstarfið styrkt starfsemi Fangelsismálastofnunar og bætt það efni sem frá henni koma. Aukin gæði og betra efni er einnig til bóta fyrir námsbraut í félagsfræði við Háskóla Íslands, fræðasamfélagið og íslenskt samfélag.

Fyrir hönd félagsfræðinnar skrifuðu Sigrún Ólafsdóttir, prófessor og námsbrautarstjóri félagsfræðinnar, Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, og Stefán Hrafn Jónsson deildarforseti Félags-, mannfræði- og þjóðfræðideildar, undir samninginn. Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, skrifaði undir fyrir hönd stofnunarinnar. Brynja Rós Bjarnadóttir er tengiliður Fangelsismálastofnunar við fulltrúa félagsfræðinnar. Auk ofantaldra er Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði, á myndinni. MYN