Samstarf um rannsóknir tengdar laxi og laxeldi | Háskóli Íslands Skip to main content

Samstarf um rannsóknir tengdar laxi og laxeldi

1. júní 2018
lax

Háskóli Íslands og fyrirtækið Stofnfiskur hafa gert með sér samning um rannsóknasamstarf á sviði líffræði laxfiska og laxeldis. Markmiðið er m.a. að þróa aðferðir til að stjórna kynþroska eldislaxa og ala geldlaxa.

Samninginn undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Stofnfisks, í Háskóla Íslands á dögunum en Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskólans mun annast framkvæmd samningins af hálfu Háskólans. Hann gerir m.a. ráð fyrir að fyrirtækið og starfsmenn Líf- og umhverfisvísindastofnunar sæki saman um rannsóknarstyrki í innlenda og erlenda rannsókarsjóði og eigi einnig samstarf um að leiðbeina framhaldsnemum við deildina á sviði rannsóknarsamstarfsins. Þá skuldbindur Stofnfiskur sig til þess að fjármagna tvö störf við Líf- og umhverfisvísindadeild, starf sérfræðings við deildina og sömuleiðis doktorsnema. 

Stofnfiskur mun fá aðgang að húsnæði Líf- og umhverfisvísindadeildar í Öskju gegn leigu þar sem allt að fjórir starfsmenn á vegum Stofnfisks munu geta haft vinnuaðstöðu. Auk þess fá starfsmenn á vegum Stofnfisks aðgang að aðstöðu og tækjum á rannsóknastofum Líf- og umhverfisfræðideildar og tæki í eigu Stofnfisks í Öskju verða sömuleiðis aðgengileg starfsmönnum deildarinnar.

Stofnfiskur, sem sérhæfir sig í framleiðslu laxahrogna sem seld eru í laxeldi um allan heim, og Háskóli Íslands hafa átt í samstarfi um afmörkuð rannsóknarverkefni um árabil. Verkefnið sem nú er ýtt úr vör ber heitið „Stjórn kynþroska hjá eldislaxi“ en með því er ætlunin að rannsaka erfðafræði- og sameindalíffræðilega þætti sem liggja að baki kynþroska laxa og þróa nýjar aðferðir til að ala geldlaxa. Er þetta m.a. gert til þess að bregðast við vaxandi áhyggjum í samfélaginu af blöndun eldislaxastofna og náttúrulegra laxastofna samfara auknu fiskeldi hér á landi og annars staðar í heiminum.
 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Stofnfisks, handsala samstarfssamninginn.
Fulltrúar Háskóla Íslands og Stofnfisks við undirritunina. Efri röð: Eduardo Rodriguez, Theódór Kristjánsson, Magnús Diðrik Baldursson og Zophonías Oddur Jósson. Fremri röð: Jón Atli Benediktsson og Jónas Jónasson.

Netspjall