Skip to main content
30. apríl 2018

Samstarf um ökukennaranám 

Fulltrúar Háskóla Íslands, Endurmenntunar Háskóla Íslands og Samgöngustofu undirrituðu á dögunum samstarfssamning um ökukennaranám hér á landi.

Fram kemur í samningnum að námið fari fram samkvæmt námsskrá sem Samgöngustofa setur og ráðherra staðfestir. Deild faggreinakennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands mun bera ábyrgð á náminu og metur það til eininga en framkvæmdin verður á vegum Samgöngustofu í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Samningurinn nýi leysir af hólmi samstarfssamning sem Samgöngustofa og Endurmenntun gerðu á síðasta ári en þá hafði nám til ökukennara ekki verið í boði hér á landi í nokkur ár. Nýi samningurinn gildir í fimm ár, eða til ársins 2023. Byrjað verður að bjóða upp á námskeið í samræmi við samninginn seinna á árinu en námið tekur þrjú misseri áður nemendur geta þreytt próf og orðið löggiltir ökukennarar.

Það voru þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Kristín J. Njarðvík endurmenntunarstjóri, Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, og Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, sem undirrituðu samninginn í húsakynnum Háskólans.

Fulltrúar Háskóla Íslands, Endurmenntunar og Samgöngustofu að lokinni undirskrift.