Samstarf Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík um meistaranám í máltækni | Háskóli Íslands Skip to main content

Samstarf Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík um meistaranám í máltækni

27. mars 2018

Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa gert með sér samstarfssamning um meistaranám í máltækni. Nemendur geta innritast í hvorn skólann sem er en tekið hluta af námi sínu við hinn skólann eða erlendan samstarfsskóla. Rektorar háskólanna tveggja, Jón Atli Benediktsson og Ari Kristinn Jónsson, undirrituðu samninginn í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu föstudaginn 23. mars að viðstaddri Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem vottaði samninginn.

Máltækni sem fræðigrein verður sífellt mikilvægari samfara hröðum tækniframförum í samfélaginu en hún miðar að því að þróa búnað sem getur unnið með, skilið og talað tungumál og stuðla að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu. Máltækni er talin munu gegna mikilvægu hlutverki í varðveislu lítilla tungumála eins og íslensku í þeirri stafrænu byltingu sem gengur nú yfir heiminn en greinin byggist á samspili ólíkra fræðigreina eins og tölvunarfræði, málvísinda, gervigreindar, tölfræði og sálfræði. Í meistaranáminu við báða háskóla fá nemendur í senn vísindalega og hagnýta þjálfun sem nýtast mun við störf af ýmsu tagi sem tengjast máltækni eða í frekara námi.

Samkvæmt samningnum sem undirritaður var á föstudag munu báðir háskólar bjóða upp á meistaranám í máltækni. Um er að ræða þrjár innritunarleiðir:

  • Nemendur geta innritast í meistaranám í máltækni við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og útskrifast þaðan með M.A.-próf í máltækni, en mega taka allt að 50 einingar við Háskólann í Reykjavík án þess að greiða þar skólagjöld.
  • Nemendur geta innritast í meistaranám í máltækni við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og útskrifast þaðan með M.Sc.-próf í máltækni, en mega taka allt að 50 einingar við Háskóla Íslands án þess að greiða þar innritunargjöld.
  • Nemendur geta innritast á máltæknikjörsvið innan meistaranáms í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og útskrifast þaðan með M.S.-próf í tölvunarfræði. Þeir geta tekið námskeið við Íslensku- og menningardeild en ekki námskeið við Háskólann í Reykjavík nema greiða þar skólagjöld.

Einnig verður mögulegt fyrir nemendur að taka hluta námsins við erlenda samstarfsskóla. Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu námsins hjá HR: https://www.ru.is/meistaranam/tolvunarfraedi/maltaekni/ og hjá HÍ: https://www.hi.is/islensku_og_menningardeild/um_ma_nam_i_maltaekni

Sérstök nefnd með fulltrúum beggja skóla hefur umsjón með samstarfssamningnum sem er til fimm ára.

„Í þeirri miklu tæknibyltingu sem nú er yfirstandandi munu samskipti okkar við tæknina gerbreytast og verða miklu líkari mannlegum samskiptum.  Við sjáum þetta þegar í dag með snjallsíma og fleiri tæki sem skilja talað mál. Það er algert lykilatriði fyrir Ísland og íslenska tungu að þessi samskipti við tæknina geti farið fram á íslensku.  Við fögnum því innilega þessu samstarfi um menntun í máltækni sem tengir sérþekkingu í tölvunarfræði við HR og sérþekkingu í íslenskum málvísindum við HÍ, með það að markmiði að tryggja að við getum átt samskipti við alla okkar nýju tækni á íslensku,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík við undirritunina.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands sagði jafnframt að ,,öflug máltækni fyrir íslensku er okkur Íslendingum gríðarlega mikilvæg. Mikil áhersla verður á næstu misserum lögð á rannsóknir og þróun í tungutækni og stafrænni íslensku. Þetta er flókið viðfangsefni sem kallar á þekkingu á ólíkum fræðasviðum, allt frá máltöku barna til þekkingar á íslensku máli til tæknilausna. Því er mikið fagnaðarefni að boðið sé upp á framsækið þverfræðilegt nám á þessu sviði og þar sem tveir stærstu háskólarnir leggja saman kraftana í verkefni sem skiptir svo miklu máli fyrir framtíð íslenskrar tungu og þróun samfélagsins."

Jón Atli Benediktsson, Lilja Alfreðsdóttir og Ari Kristinn Jónsson
Jón Atli Benediktsson, Lilja Alfreðsdóttir og Ari Kristinn Jónsson

Netspjall