Samstarf Háskóla Íslands og 50skills tryggir öflugri tengsl milli atvinnulífs og nemenda | Háskóli Íslands Skip to main content
22. maí 2020

Samstarf Háskóla Íslands og 50skills tryggir öflugri tengsl milli atvinnulífs og nemenda

Háskóli Íslands og 50skills hafa hafið samstarf sem miðar að því að  efla tengingu á milli atvinnulífs og nemenda við skólann. Samstarfið felur í sér að viðskiptavinir 50skills, margir af stærstu vinnustöðum landsins, geta nú endurbirt störf sín með sjálfvirkum hætti á Tengslatorgi Háskóla Íslands. 50skills er þjónustað af Advania á Íslandi og hluti af Mannauðslausnum Advania.

Virk þátttaka í samfélagi og atvinnulífi er ein af fjórum áherslum í stefnu Háskóla Íslands, HÍ21, þar sem samstarf rannsakenda, nemenda, atvinnulífs, stofnana og þjóðlífs er í forgrunni. Til þess að fylgja eftir þessu stefnumáli opnaði Háskólinn árið 2016 starfamiðluna Tengslatorg Háskóla Íslands á vefnum tengslatorg.hi.is. Markmiðið var að fjölga tækifærum stúdenta til að nýta þekkingu sína og færni úr háskólanámi úti í atvinnulífinu og að stuðla að enn frekara samstarfi nemenda og rannsakenda við starfsvettvang, stofnanir og atvinnulíf. Á vef Tengslatorgs er hægt að miðla störfum og verkefnum þar sem sérstaklega er verið að leita eftir mannauði úr röðum stúdenta. Frá því að vefurinn var settur á laggirnar hefur hann vaxið og dafnað og hafa fjölmörg fyrirtæki fundið framtíðarstarfskrafta sína úr röðum stúdenta með aðstoð torgsins.

50skills er ráðningarhugbúnaður sem tugir af stærstu vinnuveitendum á Íslandi nota til að útbúa starfsauglýsingar, vinna úr starfsumsóknum og virkja starfsfólk á vinnustaðnum. 
Með samstarfi Háskóla Íslands og 50skills geta viðskiptavinir fyrirtækisins nú endurbirt laus störf með sjálfvirkum hætti á Tengslatorgi Háskóla Íslands endurgjaldlaust, hvort sem um er að ræða auglýsingar um sumarstörf eða framtíðarstörf sem krefjast háskólamenntunar.

„Við í Háskóla Íslands fögnum mjög þessu samstarfi við 50skills. Tæknilegar lausnir fyrirtækisins tryggja enn betri tengsl atvinnulífsins við stúdenta Háskóla Íslands og ávinningurinn er beggja. Með þessu samstarfi er leiðin úr námi í starf gerð enn skilvirkari,“ segir Jónína Kárdal, verkefnisstjóri Tengslatorgs Háskóla Íslands. 

„Við hjá 50skills erum stolt að geta lagt lóð á vogarskálarnar í að tengja saman íslenskt atvinnulíf og Háskóla Íslands. Við erum í einstakri stöðu til að koma á virkri tengingu á milli þeirra sem eru að sækjast eftir vinnuafli og þeirra sem sækjast eftir verkefnum,“ segir Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri 50skills.

Um 50skills

50skills er leiðandi á Íslandi í þróun og þjónustu á hugbúnaðarlausnum, sem snúa að birtingu starfsumsókna, úrvinnslu umsækjanda og virkjun starfsfólks. Tugir af stærstu vinnuveitendum á Íslandi nýta 50skills, en þar á meðal má m.a. nefna Eimskip, Advania, Orkuveitan, N1, Ístak, 66 Norður, Valka, Norðurorka, Nox Medical og fleiri. Unnið var úr um 40.000 umsóknum árið 2019 af hundruðum stjórnenda. Þá er 50skills með tengingar við á þriðja tug samstarfsaðila í samþættingum, en þjónustan býður meðal annars upp á tengingar við gerð ráðningarsamninga, rafrænar undirritarnir, stofnun notenda í launakerfum, geymslu gagna, gagnagreiningar, tengingar við samskiptaforrit, starfatorg og aðrar lausnir sem tengjast ráðningum. 

Kristján Kristjánsson og Jónína Kárdal