Skip to main content
8. apríl 2019

Samstarf á sviði sjálfbærni og nýsköpunar í ferðaþjónustu

Háskóli Íslands og INCAE-viðskiptaháskólinn í Kosta Ríku hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf á sviði sjálfbærni og nýsköpunar í ferðaþjónustu. Ætlunin er að kanna möguleika á sameiginlegum rannsóknarverkefnum og samstarfi í kennslu og þróun námsefnis. 

Anna Dóra Sæþórsdóttir, deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar og prófessor í ferðamálafræði, skrifaði undir viljayfirlýsinguna ásamt Sigurði M. Garðarsyni, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Jaime Garcia, forstöðumaður verkefna á sviði vísitölu félagslegra framfara (social progress index) undirritaði viljayfirlýsinguna fyrir hönd INCAE. 

Undirritunin fór fram í lok alþjóðlegu ráðstefnunnar What Works sem fram fór í Hörpu 1-3. aprí en þar stóðu Íslenski ferðaklasinn og Háskóli Íslands fyrir öflugu málþingi um sjálfbæra ferðaþjónustu og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Að þeirra sögn er aukið samstarf skólanna góður kostur. Þó að margt skilji löndin að eru ýmis líkindi með uppbyggingu og hlutverki ferðaþjónustu í Kosta Ríku og á Íslandi. Ferðamenn koma vegna einstakrar náttúru, ferðaþjónustan hefur vaxið hratt og í báðum löndum er mikilvægt er að byggja upp innviði, þekkingu og hæfni til nýsköpunar. Kosta Ríka er leiðandi í þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu sem tekur mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og er mikið starf unnið á því sviði hjá INCAE-viðskiptaháskólanum. Sjálfbær þróun hefur verið grunnþáttur í námi í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna undirstrika mikilvægi menntunar og rannsókna á því sviði. 

Fremri röð frá vinstri: Sigurður M Garðarsson, Anna Dóra Sæþórsdóttir og Jaime Garcia. Aftari röð frá vinstri: Micheal Green, forstjóri Social Progress Imperative, Rósbjörg Jónsdóttir, SPI á Íslandi/ Cognitio, og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans.