Skip to main content
8. október 2021

Samningur um nýtt starfsár máltækniáætlunar

Samningur um nýtt starfsár máltækniáætlunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og aðrir aðilar að Samstarfi um íslenska máltækni (SÍM) hafa nú undirritað samninga við máltæknimiðstöðina Almannaróm um nýtt verkefnisár í máltækniáætlun. Samningsupphæðin er ríflega 386 milljónir króna.

Hluti þeirra verkefna sem um ræðir verður unninn á Rannsóknarstofunni Máli og tækni við Háskóla Íslands sem Anton Karl Ingason, dósent í íslenskri málfræði og máltækni við Íslensku- og menningardeild, stýrir. Þau verkefni snúa að miklu leyti að því að kortleggja frávik frá sjónarmiðum í málfarsráðgjöf og þróa hugbúnað sem leiðréttir villur. Sú þróun fer fram í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Miðeind. Meðal áhersluatriða á nýju verkefnisári er að þróa málfarsráðgjafarlausnir sem koma til móts við þarfir málhafa sem hafa lært íslensku sem annað mál.

Auk þess tekur Háskóli Íslands við verkefnisstjórn máltækniáætlunar á nýju verkefnisári en hún var áður í höndum Önnu Nikulásdóttur hjá Grammatek. Tveir verkefnastjórar á vegum HÍ munu samhæfa aðgerðir SÍM og stýra samstarfi hópsins en það eru Þórunn Arnardóttir og Gestur Svavarsson.

Fulltrúa þeirra sem skrifuðu undir samninga um nýtt verkefnisár í máltækniáætlun.