Skip to main content
6. febrúar 2018

Samkomulag HÍ og FS um uppbyggingu stúdentagarða

Háskóli Íslands og Félagsstofnun stúdenta hafa gert með sér samkomulag um uppbyggingu stúdentagarða á skipulagssvæði Háskólans. Tildrögin eru þau að fram komu alvarlegar athugasemdir frá aðilum innan og utan Háskóla Íslands við tillögu að breytingu á deiliskipulagi á lóð Gamla Garðs við Hringbraut 29, sem auglýst var í byrjun júlí sl. og fól í sér viðbyggingu við Gamla Garð og nýbyggingu á lóð hans. Háskólaráð fjallaði um málið í byrjun september sl. og var ákveðið að nauðsynlegt væri að staldra við og fara vandlega yfir málið að nýju með það að markmiði að leiða það til farsælla lykta í breiðri sátt um nýtingu. 

Í framhaldi af fundi háskólaráðs í september sl. áttu rektor og borgarstjóri fund ásamt fulltrúum beggja aðila, auk fleiri aðila, þ.á m. Stúdentaráðs og Félagsstofnunar stúdenta, þar sem farið var yfir málið og sammælst um að skipa starfshóp um það. Í þeirri vinnu sem við tók kom upp sú hugmynd að Háskólinn og Félagsstofnun gerðu með sér samkomulag um uppbyggingu stúdentagarða á skipulagssvæði skólans.  

Með samkomulaginu, sem fjallað var um í háskólaráði 1. febrúar sl., verður fyrrgreind tillaga að breytingu á deiliskipulagi háskólasvæðisins vegna lóðarinnar við Hringbraut 29 dregin tilbaka og í staðinn unnin ný deiliskipulagstillaga í víðtækri sátt þannig að Gamli Garður fái meira andrými en skv. fyrri tillögu. Hefst sú vinna strax og verður lokið eins fljótt og auðið er. Á vettvangi nýrrar skipulagsnefndar háskólasvæðisins sem skipuð er af háskólaráði og sett hefur verið á laggirnar innan Háskóla Íslands verði strax hafinn undirbúningur að gerð heildarskipulags fyrir háskólasvæðið. Þar verði m.a. skoðaðir möguleikar á áframhaldandi uppbyggingu stúdentagarða og leitast við að finna byggingareiti sem geta aukið svigrúm Félagsstofnunar stúdenta til uppbyggingar stúdentaíbúða innan háskólasvæðisins og í nágrenni þess, umfram þær 400 íbúðir sem þegar eru áformaðar skv. viljayfirlýsingu Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Félagsstofnunar stúdenta frá 22. desember 2014, án þess þó að það hefti svigrúm Háskóla Íslands til uppbyggingar húsnæðis fyrir faglega starfsemi skólans á svæðinu.

Þegar er hafin bygging 245 íbúða við svonefnda Oddagarða að Sæmundargötu 23. Jafnframt er samkomulag um að skoðaðir verði aðrir mögulegir byggingareitir fyrir stúdentagarða, s.s. við Dunhaga, á svonefndri randbyggð Vísindagarða Háskóla Íslands á Landspítalalóðinni og svonefndum Fluggarðareit austan Njarðargötu.
 

Frá háskólasvæðinu