Samfélagsleg áhrif háskóla rædd á sviðsþingi | Háskóli Íslands Skip to main content
23. maí 2019

Samfélagsleg áhrif háskóla rædd á sviðsþingi

Húsnæðismál, framtíð náms og kennslu og samfélagsleg áhrif háskóla voru í brennidepli á misserisþingi Menntavísindasviðs sem haldið var við Háskóla Íslands 14. maí síðastliðinn. 

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, reið á vaðið og fór yfir starfsemi sviðsins síðustu mánuði. Kolbrún stiklaði á stóru í skýrslu sinni og fór m.a. yfir niðurstöður nýrrar húsnæðiskönnunar þar sem afstaða starfsfólk Menntavísindasviðs til fyrirhugaða flutninga sviðsins á aðalsvæði Háskólans var könnuð. 

Þá greindi Kolbrún frá helstu verkefnum sem framundan eru á sviðinu. Vinna er hafin við að auka stuðning við nýnema en í undirbúningi er m.a. sérstök nýnemavika sem hefur það markmið að efla nemendur til að helga sig námi og sporna gegn brotthvarfi. Slæður Kolbrúnar má nálgast HÉR.

Tryggvi Thayer, nýráðinn kennsluþróunarstjóri Menntavísindasviðs, var næstur á svið og reifaði hann hugmyndir sínar varðandi háskólakennslu fyrir framtíðina. Tryggvi lagði áherslu á að „framtíðin er ekki eitthvað sem kemur fyrir okkur heldur eitthvað sem við sköpum og mótum með okkar athöfnum og ákvörðunum hverju sinni.“ Í lok erindisins fjallaði hann um helstu áskoranir Menntavísindasviðs varðandi nám og kennslu til framtíðar. Slæður Tryggva má nálgast HÉR.

Eftir að Tryggvi lauk máli sínu tóku við vinnusmiðjur með ýmsum viðfangsefnum tengdum starfsemi sviðsins, s.s. stuðningi við nýnema, samfélagslegum áhrifum rannsókna, heilsueflandi starfsumhverfi, nýjungum í námi og kennslu, starfsþróun og fleira.

Samfélagsleg áhrif háskóla var yfirskrift málstofu að loknum vinnusmiðjum. Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, hélt fyrirlestur um samfélagslega virkni og þjónustu háskóla. Í erindi Daða kom m.a. fram að stofnaður hafi verið starfshópur innan veggja Háskólans sem vinnur að því að þróa viðmið um hvernig akademískir starfsmenn geti fengið mikilvægt framlag til uppbyggingar samfélagsins metið í störfum sínum. Vinna starfshópsins tengist markmiðum stefnu HÍ-21 um virka þátttöku í samfélaginu. Slæður Daða má nálgast HÉR.

Í kjölfarið tóku við pallborðsumræður þar sem fjallað var nánar um samfélagsleg áhrif háskóla í víðu samhengi. Rætt var um áhrif menntarannsókna á skólastarf, áhrif háskóla á lista- og menningarstarf, framlag háskólanema til samfélagsins með aukinni borgaralegri þátttöku, mikilvægi samtals vísindamanna við vettvang og hvaða aðferðum fræðimenn geta beitt í þekkingarmiðlun í þágu þjóðarinnar.  

Í pallborði sátu: Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor, Daði Már Kristófersson forseti Félagsvísindasviðs, Hanna Ólafsdóttir lektor, Jónína Sigurðardóttir fulltrúi nemenda, Ingvar Sigurgeirsson prófessor og Kristín Harðardóttir rannsóknastjóri Menntavísindasviðs.

Fundarstjóri var Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjúnkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda. 
 

Húsnæðismál, framtíð náms og kennslu og samfélagsleg áhrif háskóla voru í brennidepli á misserisþingi Menntavísindasviðs sem haldið var við Háskóla Íslands 14. maí síðastliðinn. Í lok þingsins voru pallborðsumræður um samfélagsleg áhrif háskóla. Í pallborði sátu: Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor, Daði Már Kristófersson forseti Félagsvísindasviðs, Hanna Ólafsdóttir lektor, Jónína Sigurðardóttir fulltrúi nemenda, Ingvar Sigurgeirsson prófessor og Kristín Harðardóttir rannsóknastjóri Menntavísindasviðs.