Samband fólks og dýra í Ritinu | Háskóli Íslands Skip to main content
19. maí 2020

Samband fólks og dýra í Ritinu

Fyrsta hefti Ritsins á þessu ári er komið út og er þema þess náttúruhvörf, samband fólks og dýra. Í heftinu eru vaktar upp aðkallandi spurningar er varða loftslagsbreytingar, fækkun dýrategunda, umhverfissiðfræði og sjálfbærni.

Þeir þverfaglegu textar og listaverk sem birtast í Ritinu eiga það sameiginlegt að fela í sér nýstárleg sjónarhorn á viðfangsefni sem áður voru gegnsýrð hugmyndafræði mannmiðjunar. Tekin eru til gagnrýninnar umfjöllunar gamalgróin viðhorf um aðgreiningu manna og dýra og er efnið tímabært framlag til pósthúmanískrar umræðu á Íslandi. Höfundar takast hér á við flóknar sameiginlegar áskoranir og viðfangsefni sem blasa við nú á tímum mannaldar – þvert á landamæri og (dýra)tegundir. Þá er einnig fjallað um birtingarmyndir dýra í sjónrænu efni og framsetningu þeirra á söfnum og sýningum. Dýr í sínum margvíslegu myndum hafa löngum haft sterkt aðdráttarafl og heillað manninn frá upphafi vega. Þá hafa þau jafnframt valdið manneskjunni margvíslegum heilabrotum, sem vara enn um sinn, eins og dæmin í þessu hefti sýna glöggt.

Þemaritstjórar heftisins eru þau Katla Kjartansdóttir, doktorsnemi í safnafræði, og Kristinn Schram, dósent í þjóðfræði, og hér að neðan er hægt að hlýða á viðtal við þau í Hugvarpi - hlaðvarpi Hugvísindasviðs. Aðalritstjórar Ritsins eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir og er þetta fyrsta heftið undir þeirra ritstjórn. Guðrún er með doktorsgráðu í íslenskum bókmenntum og er stundakennari en Sigrún ver doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum 10. júní næstkomandi ásamt því að vera stundakennari. 

Hægt er að lesa Ritið á ritid.hi.is.

Sigrún Margrét Guðmundsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir hafa tekið við ritstjórn Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands.