Sáluhjálp læknanemans Skauta | Háskóli Íslands Skip to main content
29. október 2019

Sáluhjálp læknanemans Skauta

Jóhannes Gauti treður upp á Háskólatorgi

Það er mjög mikilvægt að eiga önnur áhugamál utan náms og starfs til að geta dreift huganum og æft hann á ólíka vegu, segir læknaneminn Jóhannes Gauti Óttarsson, sem gengur undir listamannsnafninu Skauti og vakti mikla athygli fyrir tónlist sína á bæði Nýnemadögum Háskóla Íslands og Októberfest á haustdögum.

Jóhannes Gauti lét fyrst að sér kveða á tónlistarsviðinu í fyrrasumar með klúbbalaginu „Ekki heim“ og hann bætti um betur í sumar þegar hann sendi frá sér heila plötu, Sáluhjálp. Aðspurður segist hann hafa samið tónlist allt frá grunnskóla, bæði á gítar og í tölvu. „Ég held að ég sé frekar mikið fyrir að skapa og tónlistin er, afsakið enskuslettuna, skemmtilegasta creative outlet-ið fyrir mér,“ segir hann.

En hvaðan skyldi listamannsnafið Skauti koma. „Ég heiti Jóhannes Gauti og ef maður segir það saman heyrist Skauti,“ svarar hann að bragði.

Jóhannes yrkir á íslensku og óhætt er að textar hans séu persónulegir þar sem djamm, samskipti kynjanna og andleg heilsa koma m.a. við sögu undir taktföstum tónum. Aðspurður segist hann reyna að einskorða sig ekki of mikið við eina tónlistarstefnu „Ég myndi segja að ég sé með ákveðið róf þar sem ég staðset mig mismunandi eftir því hvernig mér líður, hvað ég hugsa eða vil koma á framfæri þegar ég geri tónlist. Allt frá því að vera með púkalæti yfir í rólegheit,“ segir hann enn fremur.

Jóhannes opnaði Októberfest Stúdentaráðs í Vatnsmýrininni í haust við góðar undirtektir aðspurður segist hann ekki koma jafnoft fram og hann vildi, m.a. vegna anna í námi „en þetta fer stigmagnandi sem er mjög skemmtilegt. Ég elska að flytja tónlistina mína fyrir fólk,“ bætir hann  við.

Jóhannes Gauti eða Skauti eins og hann nefnir sig tróð upp á Háskólatorgi á Nýnemadögum í haust. „Ég myndi segja að ég sé með ákveðið róf þar sem ég staðset mig mismunandi eftir því hvernig mér líður, hvað ég hugsa eða vil koma á framfæri þegar ég geri tónlist. Allt frá því að vera með púkalæti yfir í rólegheit,“ segir hann um tónlistina sína. MYND/Kristinn Ingvarsson

Skólinn skipar skiljanlega mikinn sess í lífi Jóhannesar sem er á þriðja ári í læknisfræði en þess má geta að hann var í hópi styrkþega úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands þegar hann hóf nám 2017. Aðspurður segist hann hafa stefnt á læknisfræðina frá því í menntaskóla. „Mannleg samskipti og að hjálpa öðrum, mér finnst það mjög gefandi,“ segir hann þegar hann er inntur eftir því hvað heilli hann við læknisstarfið. 

En hvernig skyldi ganga að samræma nám og tónlistarsköpun og –flutning? „Bara nokkuð vel. Námið er náttúrlega í fyrsta sæti og maður leyfir sér bara eins mikið og maður má að vinna í tónlistinni samhliða því,“ bætir Jóhannes við.

Tónlistarmenn úr hópi lækna og læknanema á Íslandi hafa látið töluvert að sér kveða í íslensku tónlistarlífi í gegnum tíðina og má þar m.a. benda á Hauk Heiðar Hauksson, söngvara Diktu, og Svein Rúnar Sigurðsson, margfaldan Eurovision-þátttakanda. Skyldi tónlistin fylgja Jóhannesi áfram í námi og í starfi í framtíðinni? „Hún mun vonandi fá að fljóta með á hliðarlínunni. Það er mjög mikilvægt að eiga önnur áhugamál utan náms og starfs til að geta dreift huganum og æft hann á ólíka vegu. Líkt og gangverk verður maður að hafa mörg tannhjól til að snúa svo hlutirnir virki,“ segir hann að endingu.

Skauti á Spotify

Jóhannes Gauti